Játar allt nema tilraun til manndráps

Frá þingfestingu málsins í dag.
Frá þingfestingu málsins í dag. mbl.is/Eyþór

Shokri Keryo neitar að hafa átt sök á skotárás í Úlfarsárdal í Reykjavík í nóvember. Er hann ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Játaði hann aftur á móti öllum sjö ákæruliðum seinni ákærunnar sem snýr að sex umferðarlagabrotum og einu umferðar- og fíkniefnalagabroti.

Þingfesting í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Hafi stofnað lífi íbúa í hættu

Fyrri ákæran lýtur að tilraun til manndráps, eignaspjöllum og hættubroti aðfaranótt 2. nóvember 2023. Er hann sagður hafa skotið fjórum skotum í áttina að fjórum einstaklingum.

Ákærði hafi beint óþekktu skot­vopni með 9 mm hlaupi í átt að þeim þar sem þeir stóðu ut­an­dyra við íbúðarhúsnæði, og hleypt af skotum. Eitt skotanna hafi farið inn um glugga hjá fjögurra manna fjölskyldu í íbúðarhúsnæðinu, sem er málinu að öllu óviðkomandi. 

Segir í ákærunni að Shokri hafi með hátt­semi sinni stofnað lífi og heilsu þeirra sem fyr­ir voru sem og íbú­um húss­ins í aug­ljós­an háska á ófyr­ir­leit­inn hátt.

Ók ítrekað undir áhrifum

Seinni ákæran á hendur honum lýtur að sex umferðarlagabrotum og einu umferðar- og fíkniefnalagabroti. Játaði Shokri sök í öllum ákæruliðum.

Gengst hann þar með við því að hafa ítrekað ekið án ökuréttinda og verið óhæfur til að stjórna bifreiðunum.

Í fimm tilfellum mældist efnið tetrahýdrókannabínól (THC) í blóði hans og í eitt skiptið hafði hann haft maríjúana í vörslu sinni.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir er settur héraðsdómari í málinu en Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, er settur saksóknari. Leó Daðason er verjandi Shokri.

Einnig voru fjórir réttargæslumenn bótakrafa viðstaddir en þeirra á meðal er Gabríel Douane Boama, sem varð fyrir skoti í fót. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert