Aukinn þrýstingur á flutning dvalarleyfishafa til landsins

Mótmælendur hafa verið iðnir við að hittast fyrir framan Alþingishúsið …
Mótmælendur hafa verið iðnir við að hittast fyrir framan Alþingishúsið til að þrýsta á íslensk stjórnvöld að sækja þá aðila til Gasa sem fengið hafa dvalarleyfi hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrýstingur hefur aukist töluvert undanfarna daga á að íslensk stjórnvöld sendi diplómatískan erindreka á landamæri Gasa og Egyptlands. Mótmælendur hafa verið duglegir að láta í sér heyra og safnast reglulega saman fyrir framan Alþingishúsið og ráðherrabústaðinn.

Þá hafa til að mynda 24 íslensk fé­laga­sam­tök hvatt stjórnvöld til að leggja allt kapp á að tryggja brott­för þeirra einstaklinga, sem fengið hafa dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli laga um sameiningu fjölskyldna, frá Gasa. 

Ferð þriggja kvenna til Egyptalands, þar sem þeim tókst að aðstoða fjölskyldu að komast frá Gasa til Egyptalands, hefur einnig vakið athygli en stjórnvöld hafa ekki sent neina fulltrúa á svæðið. Utanríkisráðherra hefur á sama tíma vakið athygli á að hlutfallslega fleiri hafi hlotið dvalarleyfi á þessum forsendum en á hinum Norðurlöndunum og að endurskoða þurfi kerfið.

11 af þeim 128, sem fengið hafa slíkt dvalarleyfi hér á landi frá 7. október, eru komnir til landsins nú þegar. Á listanum eru 75 börn, 44 mæður og 9 feður.

Fjöldinn tvöfaldast á liðnu ári

Dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar eru aðeins veitt nánustu aðstandendum einstaklinga sem búsettir eru hér á landi og hafa rétt til fjölskyldusameiningar. 

Flestar umsóknirnar bárust Útlendingastofnun á árunum 2022 og 2023 en eftir 7. október hafa 8 umsóknir bæst við.

Fjöldi Palestínu­manna á Íslandi tvö­faldaðist hart­nær á liðnu ári, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Útlend­inga­stofn­un. Þeir voru 300 tals­ins í upp­hafi árs 2023, en 220 Palestínu­menn fengu dval­ar­leyfi í fyrsta sinn í fyrra, flest­ir á grund­velli alþjóðlegr­ar vernd­ar eða fjöl­skyldusam­ein­ing­ar við flótta­menn.

Að auki dvelja á land­inu um 70 um­sækj­end­ur um vernd frá Palestínu, sem eiga ólok­in mál hjá Útlend­inga­stofn­un og kær­u­nefnd út­lend­inga­mála.

Tóku málin í eigin hendur

Von er á þremur börnum ásamt móður þeirra til landsins á næstu dögum en þær vinkonur María Lilja Þrastardóttir, Kristín Eiríksdóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir, sem staddar eru úti í Kairó í Egyptalandi á eigin vegum, aðstoðuðu fjölskylduna yfir landamærin frá Gasa og munu þær fylgja henni alla leið heim.

Þá eru þær að eigin sögn þegar farnar að plana hvernig hjálpa megi næst móður með langveikt þriggja ára gamalt barn yfir landamærin og hingað til lands. 

„Við höf­um gert ís­lensk­um stjórn­völd­um grein fyr­ir að við séum hér úti og að við séum til­bún­ar að aðstoða hvern þann er­ind­reka sem kann að koma frá Íslandi, það væri minnsta mál. Við erum all­ar boðnar og bún­ar til þess að vera hérna leng­ur og taka á móti fólki,“ sagði María í sam­tali við mbl.is fyrr í dag.

Hættulegasti staður í heimi fyrir börn

Minnst 27.708 ein­stak­ling­ar hafi verið drepn­ir á Gasa­svæðinu frá upp­hafi átak­anna og 67.147 særst. Aðeins 14 af 36 sjúkra­hús­um eru tal­in að hluta til starf­hæf og um 75% íbúa hafa neyðst til að yf­ir­gefa heim­ili sín.

Þá telur Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna (UNICEF) Gasa vera hættu­leg­asta stað í heimi fyrir börn og að öll börn á svæðinu undir fimm ára aldri séu vannærð.

Varnarmálaráðherra Ísraels sagði í gær að landhernaður Ísraelshers myndi á endanum beinast gegn borginni Rafha sem er á landamærum Gasa og Egyptalands. Þar er talið að um helmingur íbúa á Gasa hafi flúið síðan stríðið hófst. 

Hafa Sameinuðu þjóðirnar ítrekað varað við yfirvofandi hungursneyð á svæðinu.

Senda þarf mannskap á svæðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtali í kvöldfréttum Rúv í gær að senda þurfi fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu á átakasvæðið til að aðstoða fólk með dvalarleyfi hér á landi þaðan í burtu.

Eins og staðan er núna er Ísland ekki með sendiráð á svæðinu. Sagði forsætisráðherra jafnframt að unnið hafi verið að því innan þriggja ráðuneyta að fólk frá Gasa, sem hafi fengið vilyrði fjölskyldusameiningar, komist hingað og utanríkisráðuneytið hafi þegar sent gögn um fólkið.

„Þau gögn eru send á viðeigandi staði, bæði í Egyptalandi og Ísrael. En þá kemur að því að vegna stöðunnar þá er það aðeins flóknara en svo að það nægi að senda slík gögn heldur þarf að senda mannskap á svæðið og sú aðgerð hefur verið í skoðun og hefur verið metin töluvert umfangsmikil og flókin,“ segir Katrín í viðtalinu.

Flókin og umfangsmikil aðgerð

Þá var einnig rætt við Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra í kvöldfréttatímanum sem sagði að sú aðgerð að aðstoða fólk frá Gasa og hingað heim væri bæði flókin og umfangsmikil en það kemur í hlut utanríkisráðuneytisins að senda fulltrúa héðan.

„Við höfum verið að leita upplýsinga, bæði frá Egyptum og Ísraelum hver staðan er á landamærunum og sömuleiðis verið í samskiptum við Norðurlöndin um það hvað þau eru að gera varðandi sambærileg tilvik og þetta er rétt sem þið segið að Norðurlöndin hafa hjálpað eigin ríkisborgurum og í einhverjum tilvikum líka dvalarleyfishöfum til Norðurlandanna en umfangið sker sig algjörlega úr í norrænum samanburði á Íslandi,“ sagði Bjarni í viðtalinu. 

Þá bætti hann því við að Ísland væri með dvalarleyfishafa á Gasasvæðinu sem væru jafn margir miðað við höfðatölu og Norðurlöndin hafi samanlagt hjálpað frá Gasa.

„Tölurnar á Norðurlöndunum eru sambærilegar því að á Íslandi væru kannski 2-3 dvalarleyfishafar á Gasa þannig að þetta er mjög umfangsmikið verkefni sem er verið að skoða hjá okkur.“

Nefnir Bjarni jafnframt að til þess að hjálpa fólki yfir landamærin þurfi að vera diplómatískur erindreki frá Íslandi. 

„Hann getur komið frá okkar ráðuneyti og við höfum verið að skoða akkúrat þetta en málið er auðvitað það að við Íslendingar þurfum aðeins að fara að horfast í augu við það að það er verið að sækja í stórauknum mæli og langt umfram það sem á við á Norðurlöndunum eftir því að koma hingað til Íslands og þetta er bara risamál.“

Regluverkið mismunandi milli landa

Kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands að reglu­verk á Íslandi sé rýmra hvað fjöl­skyldusam­ein­ing­ar varðar en í öðrum nor­ræn­um ríkj­um.

Í Dan­mörku þurfi til að mynda þeir sem fái viðbót­ar­vernd að bíða í tvö ár áður en fjöl­skyldusam­ein­ing get­i komið til greina og þá þurfi um­sækj­end­ur og þeir ein­stak­ling­ar sem verið sé að sam­eina al­mennt að upp­fylla ákveðnar inn­gild­ing­ar­kröf­ur, meðal ann­ars að stand­ast próf í dönsku.

Hvergi í ís­lensk­um lög­um er kveðið á um skyldu ís­lenskra stjórn­valda til að aðstoða dval­ar­leyf­is­hafa til að kom­ast til lands­ins, þar á meðal fjöl­skyldumeðlimi ein­stak­linga sem hafa fengið alþjóðlega vernd hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert