Lög leysi Ísland ekki undan siðferðislegri skyldu

Félagasamtökin hvetja stjórnvöld til að bjarga einstaklingum, sem hafi fengið …
Félagasamtökin hvetja stjórnvöld til að bjarga einstaklingum, sem hafi fengið viðurkenndan rétt sinn, af Gasasvæðinu. mbl.is/Hari

24 félagasamtök fagna því að um 100 einstaklingum á Gasa hafi verið veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli laga um sameiningu fjölskyldna og hvetja nú stjórnvöld til að leggja allt kapp á að tryggja brottför þeirra frá Gasa.

Hópurinn samanstandi aðallega af konum og börnum í sérstaklega viðkvæmri stöðu og staðan sem sé komin upp á Gasa sé fordæmalaus og krefjist því fordæmalausra aðgerða.

Ekki forsvaranlegt að frysta fjármagn til UNRWA

Félagasamtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að bjarga einstaklingum úr bráðum háska sem sannarlega hafi fengið viðurkenndan rétt sinn, frá íslenskum stjórnvöldum, til að sameinast fjölskyldum sínum á Íslandi.

„Það að Íslandi beri ekki lagaleg skylda til að aðstoða þennan hóp leysir Ísland ekki undan siðferðilegri skyldu til að aðstoða fólk í svo bráðri hættu. Hollensk yfirvöld hafa aðstoðað fjölda einstaklinga við að yfirgefa Gasa á grundvelli fjölskyldusameiningar og Kanada er að vinna að því sama fyrir allt að eitt þúsund einstaklinga,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu félagssamtakanna. 

Telja þau ekki forsvaranlegt að frysta fjármagn til UNRWA-stofnunarinnar að svo stöddu og minna á mikilvægi lífsbjargandi mannúðaraðstoðar til almennra borgara sem eigi enga aðild að átökunum. 

Mótmæli hafa ítrekað farið fram til að krefja fram aðgerðir …
Mótmæli hafa ítrekað farið fram til að krefja fram aðgerðir stjórnvalda við að aðstoða fjölskyldurnar út af Gasasvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fæðuóöryggi á þröskuldi hörmungar

Minnst 26.637 einstaklingar hafi verið drepnir á Gasasvæðinu frá upphafi átakanna og 65.387 særst. Aðeins 14 af 36 sjúkrahúsum séu talin að hluta til starfhæf og um 75% íbúa hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) telji Gasa hættulegasta stað í heimi til að vera barn og öll börn undir fimm ára aldri vannærð. Sameinuðu þjóðirnar segja fæðuóöryggi nú í 5. fasa á svæðinu þ.e. á þröskuldi hörmungar (e. catastrophic threshold). Hægt sé að koma í veg fyrir dauða þeirra fái hjálpargögn að berast óhindrað inn á svæðið.

Eftirfarandi félagssamtök skrifa undir yfirlýsinguna: 

  • Íslandsdeild Amnesty International
  • Barnaheill
  • Biskup Íslands
  • Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
  • FTA Geðhjálp
  • GETA-hjálparsamtök
  • Hjálparstarf kirkjunnar
  • Hjálpræðisherinn á Íslandi
  • Kvenréttindafélag Íslands
  • Mannréttindaskrifstofa Íslands
  • Prestar innflytjenda
  • Rauði krossinn á Íslandi
  • Réttur barna á flótta
  • Samtökin 78
  • Samtök um kvennaathvarf
  • Siðmennt
  • Solaris hjálparsamtök
  • Stígamót
  • UNICEF á Íslandi
  • UN Women á Íslandi
  • W.O.M.E.N Samtök kvenna af erlendum uppruna
  • Þroskahjálp
  • ÖBÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert