Samkomulag í höfn um forsenduákvæðin

Frá samningafundi breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu.
Frá samningafundi breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðfylking stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins og Samtök atvinnulífsins hafa náð samkomulagi um forsenduákvæðin hvað varðar þróun verðbólgu og vaxta. Þetta herma heimildir mbl.is.

Samningafundi deiluaðila lauk á áttunda tímanum í Karphúsinu í kvöld en fundurinn hófst klukkan 9 í morgun. Nýr fundur hefur verið boðaður klukkan 9 í fyrramálið.

Þetta var annar fundur samningsaðila frá því viðræðum var slitið þann 9. febrúar síðastliðinn. Breiðfylkingin sleit viðræðunum og sögðu ásteytingarsteininn vera forsenduákvæði um þróun verðbólgu og vaxta.

Heimildir mbl.is herma að búið sé að ná samkomulagi um forsenduákvæðin sem breiðfylkingin krafðist að yrðu sett inn í samninginn og í ljósi þessara frétta gæti verið stutt í skrifað verði undir nýjan langtímasamning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert