Systur 5 og 7 ára skotnar af leyniskyttu

Svend Richter nam réttartannlækningar og það nám leiddi hann á staði þar sem ömurleiki mannskepnunnar náði hæstu hæðum. Hann vann ásamt teymi Íslendinga að rannsóknum á fjöldagröfum í Kósovó fyrir Alþjóða stríðsglæpadómstólinn í Haag. Austurrískir lögreglumenn unnu með Íslendingunum í skjóli bandarískra hermanna við þessar ömurlegu aðstæður.

Við afar frumstæðar og hættulegar aðstæður gátu Svend og félagar sýnt fram á stríðsglæpi og aftökur með óyggjandi hætti. Hann nefnir sem dæmi um hryllinginn að þeir hafi séð að tvær systur, fimm og sjö ára voru skotnar í höfuðið af leyniskyttu sem greinilega hafði verið staðsett mun ofar, líkast til á húsþaki. Lík ungra bræðra fundust inni í brunninni kirkju og hafði annar drengurinn verið afhöfðaður.

Friður átti að vera kominn á í landinu en það var öðru nær. Sprengingar og átök voru daglegt brauð. Eitt af því sem þurfti að gera áður en teymið gat hafið störf sín var að hreinsa jarðsprengjur úr fjöldagröfunum sem ætlaðar voru til að afmá sönnunargögn og drepa þá sem voru að rannsaka líkin.

Svend er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar sinn langa og farsæla en um leið ævintýralega feril sem einn reynslumesti tannlæknir á Íslandi. Viðtalsbrotið sem fylgir með fréttinni er úr þeim kafla sem snýr að rannsóknum fyrir stríðsdómstólinn í Haag.

Svend var einnig kvaddur til eftir mannskæðu flóðbylgjuna sem skall á strendur Tælands og fleiri löndum, á jólum árið 2004. Meira en fimm þúsund manns létust þar í landi og var stór hluti þeirra erlendir ferðamenn. Heildarfjöldi látinna vegna flóðbylgjunnar í Indlandshafi var um 230 þúsund í þeim löndum sem hún náði til.

Hlutverk Svend og fleiri alþjóðlegra sérfræðinga var að bera kennsl á líkin og segir hann það verk hafa verið eitt það erfiðasta sem hann hafi komið að. Mikið var um börn og heilu fjölskyldurnar sem fórust.

Síðar í viðtalinu ræðir Svend stöðuna í þeim stríðum sem nú geisa. Hann segist sannfærður um að bæði í Úkraínu og á Gasa sé mikið um stríðsglæpi og það á báða bóga eins og yfirleitt er í stríðsátökum. Hann nefnir sem dæmi nýlega doktorsritgerð sem hann hlýddi á í desember sem leið og fjallaði einmitt um stríðsglæpi. Þar kom fram að minnsta kosti hundrað þúsund manns kunni að hvíla í fjöldagröfum í Sýrlandi en þarlend stjórnvöld taka ekki í mál að þær grafir verði rannsakaðar. Líklegasta ástæðan segir hann að sannleikurinn þar þoli ekki dagsljósið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert