SUS ánægt með málefnasamninginn

Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir ánægju með stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sérstaklega beri að fagna áherslum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum þar sem skapa á svigrúm fyrir einkarekstur, taka upp blandaða fjármögnun og láta fjármagn fylgja sjúklingi.

Þá sé fagnaðarefni að landbúnaðarkerfið verði endurskoðað með það fyrir augum að auka frelsi til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Ungir sjálfstæðismenn taki heilshugar undir þau áform ríkisstjórnarinnar að halda áfram að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Mikilvæg sé einnig sú yfirlýsing í stjórnarsáttmálanum að ýtrasta aðhalds verði áfram gætt í rekstri hins opinbera og að hlutur opinberrar starfsemi af þjóðarframleiðslunni vaxi ekki umfram það sem nú er.

Þá óskar Samband ungra sjálfstæðismanna Guðlaugi Þór Þórðarsyni velfarnaðar í starfi heilbrigðisráðherra. Segir í ályktuninni, að Guðlaugur Þór hafi verið formaður SUS frá 1993 til 1997 og bindi ungir sjálfstæðismenn miklar vonir við aðkomu hans að þessum málaflokki. Mjög aðkallandi sé að ráðast í grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu, ekki síst í þeim tilgangi að þeir miklu fjármunir sem varið sé til heilbrigðismála nýtist sem best.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert