Ný ríkisstjórn í kortunum?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Bessastöðum í kvöld.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Bessastöðum í kvöld. mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki telja útilokað að það takist að mynda nýja ríkisstjórn á morgun. Sagðist hún hafa gert forseta Íslands grein fyrir því að hún vilji stuðla að því að mynduð verði stjórn Samfylkingar með stuðningi VG og Framsóknarflokks og Frjálslyndi flokkurinn komi þar einnig að.

Slík ríkisstjórn yrði væntanlega undir forustu Samfylkingarinnar og Jóhanna Sigurðardóttir yrði forsætisráðherra. Helst þyrfti að liggja fyrir ríkisstjórn ekki síðar en á morgun, sem myndi leggja fram kraftmikla aðgerðaráætlun fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu.

Ingibjörg Sólrún sagði, að af hálfu Samfylkingar yrði lögð áhersla á að skýr verkáætlun lægi fyrir. Þannig yrði áætlunin í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að standa og stuðlað yrði að lausn á deilumálum, svo sem um Icesave-reikningana. Einnig þurfi að fara í breytingar á Seðlabankanum í takt við það sem búið er að gera hjá Fjármálaeftirlitinu. Einnig þurfi að skoða stjórnarskrármál og hvaða breytingar þurfi að gera þar áður en kosið verður í vor. Hægt sé að sjá það fyrir sér að þær breytingar verði gerðar að þjóðin geti breytt stjórnarskrá milli kosninga.

Ingibjörg Sólrún sagðist telja að Samfylkingin hefði beðið lengi eftir Sjálfstæðisflokknum og sýnt honum  mikið langlundargeð. Aðspurð um hugsanlega þjóðstjórn allra flokka, sem væntanlega yrði undir forustu Sjálfstæðisflokksins, sagðist hún ekki sjá ávinning í að fjölga í ríkisstjórn um  aðgerðarleysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert