Erla Ósk ætlar í 5. sætið

Erla Ósk Ásgeirsdóttir.
Erla Ósk Ásgeirsdóttir.

Erla Ósk Ásgeirsdóttir,  varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður mun bjóða sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar.
Erla segir mjög ríka kröfu í samfélaginu um að endurnýjun verði og áherslur breytist. Sú krafa sé einnig til staðar í Sjálfstæðisflokknum, þar sem hún bjóði fram krafta sína í aðdraganda komandi kosninga.

„Ég hef mikla reynslu af starfi innan Sjálfstæðisflokksins og tel að nú þurfi á nýjan leik að setja grunngildi sjálfstæðisstefnunnar í öndvegi. Þau gildi munu best nýtast við endurreisn efnahags þjóðarinnar.  Ég vil einbeita mér að því að efla lífskjör Íslendinga og um leið stuðla að hagsæld og auknum tækifærum einstaklingsins. Ég tel jafnframt mikilvægt að við endurheimtum virðingu fyrir lýðræðinu. 

Ég hef gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár og sit meðal annars í  Miðstjórn flokksins.  Á yfirstandandi kjörtímabili hef ég verið varaþingmaður og í tvígang tekið sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég veiti fjölskyldunefnd flokksins formennsku og á sæti í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS). Auk þessa hef ég víðtæka reynslu af félagsstörfum.  Ég var formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík 2006 – 2008. Stúdentaráðsfulltrúi og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, ásamt því að vera formaður Politicu, félags stjórnmálafræðinema.

Ég er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Ég er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og stunda meistaranám í opinberri stjórnsýslu (MPA). Ég starfa í dag í markaðsdeild á viðskiptabankasviði Landsbankans,“ segir í framboðsyfirlýsingu Erlu Óskar.

Hún hyggst á næstu dögum opna kosningaskrifstofu og vefsíðu á slóðinni  www.erlaosk.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert