Þingfundi frestað

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Þingfundi, sem átti að hefjast klukkan 15 á Alþingi, var frestað til klukkan 16:30 að ósk þingflokka stjórnarflokkanna tveggja, VG og Samfylkingarinnar. Er ástæðan óvissa um frumvarp um Seðlabankann, sem ekki var afgreitt úr viðskiptanefnd í morgun fyrir þriðju umræðu eins og til stóð. Þriðja og síðasta umræða um frumvarpið átti að fara fram á Alþingi í dag. 

Höskuldur Þórhallsson, annar tveggja þingmanna Framsóknarflokksins í viðskiptanefnd, greiddi atkvæði á fundi nefndarinnar með tillögu Sjálfstæðisflokks um að frumvarpið yrði ekki afgreitt úr nefndinni fyrr en tillögur nefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um regluverk á fjármálamörkuðum verða birtar.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is ákváðu stjórnarflokkarnir tveir að fara fram á að þingfundi yrði frestað og á meðan yrði leitað frekari skýringa hjá framsóknarmönnum á afstöðu þeirra til Seðlabankafrumvarpsins. Frestun þingfundarins kom hins vegar þingmönnum stjórnarandstöðunnar á óvart.

Höskuldur sagði við mbl.is í dag, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, væri sammála því áliti sínu, að óskynsamlegt hefði verið að afgreiða frumvarpið um Seðlabanka Íslands úr viðskiptanefnd án þess að skoða innihald skýrslunnar

„Þetta er skýrsla sem fjallar akkúrat um það sem við erum að gera í þessu máli. Sumir hafa sagt að um tímamótaskýrslu sé að ræða og ég tel að það hefði verið mjög óskynsamlegt að bíða ekki þennan stutta tíma,“ sagði  Höskuldur en skýrslan verður birt á miðvikudag. Höskuldur segir að framhaldið verði metið í kjölfar birtingar hennar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert