Fengum hroka en ekki svör

Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson mbl.is/Eggert

„Það er óhjákvæmilegt að endurtaka þessa umræðu því það fengust engin svör. Það fékkst hins vegar mikið af hroka frá fjármálaráðherra og Steinuni Valdísi Óskarsdóttur, sem sagði að stjórnarandstæðingar skildu ekki svörin. Þetta er óforsvaranleg framganga af hálfu stjórnarliða,“ sagði Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að lokinni utandagskrárumræðu um framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Umræðan fór fram að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Þingmanns Sjálfstæðisflokks og var Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra til svara.

Guðlaugur Þór varpaði fram nokkrum spurningum um framkvæmd fjárlaga og upplýsingagjöf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, annars vegar og Alþingis hins vegar. Guðlaugur spurði m.a. hverju það sætti að þingið fengi ekki þær upplýsingar sem embættismenn IMF hefðu fengið. Í lok umræðunnar ítrekaði Guðlaugur Þór spurningar sínar og fór fram á að forseti Alþingis hlutaðist til um að svör fengjust við þeim.

Sturla Böðvarsson sagði Steingrím J. meistara í því að víkja sér undan því að svara spurningum og ítrekaði kröfur um að önnur umræða um sama mál færi fram. Þuríður Backman, forseti Alþingis benti þingmönnum á að fleiri leiðir væru færar til að inna ráðherra svara, m.a. óundirbúnar fyrirspurnir.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs bætti um betur og hélt nokkurs konar kennslustund í þingsköpum úr ræðustóli Alþingis og beindi orðum sínum meðal annars til Sturlu Böðvarssonar, fyrrverandi forseta Alþingis.

Sjálfstæðismenn tóku leiðbeiningarnar óstinnt upp, þar á meðal Einar k. Guðfinnsson. „Ég frábið mér leiðbeiningarnar, þingmenn þurfa ekki á þeim að halda. Ráðherrar þurfa hins vegar á slíkum leiðbeiningum að halda og ég legg til að forseti hlutist til um að ráðherrar sýni þingmönnum þá virðingu að veita þeim sömu upplýsingar og embættismenn í Bandaríkjunum hafa fengið.“

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert