Fylgið við VG eykst enn

Fylgi við Vinstri hreyfinguna - grænt framboð virðist enn vera að aukast, skv. könnun Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst. Skv. henni er fylgið við VG nú 31,2%. Alls 49,3% svarenda eru hlynntir því að Guðlaugur Þór Þórðarson víki af lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurdæmi suður. 

Könnun Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst á fylgi stjórnmálaflokka, sem gerð var dagana 14.-19. apríl, bendir til að fylgi Vinstri grænna sé enn að aukast miðað við kannanir síðustu vikna. Í könnuninni sögðust 31,2% þeirra sem tóku afstöðu ætla að kjósa Vinstri græna, 27% sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna, 22,9% Sjálfstæðisflokkinn, 10,6% Framsóknarflokkinn og 4,9% Borgarahreyfinguna. 2,2% þeirra sem gáfu upp afstöðu sína ætla að kjósa Frjálslynda flokkinn og 0,2% Lýðræðishreyfinguna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknamiðstöðinni.

Tekið var 1.100 manna úrtak úr þjóðskrá meðal einstaklinga á aldrinum 18 til 75 ára af landinu öllu. Könnunin var gerð í gegnum síma 14. til 19. apríl og svöruðu 602. Samtals voru 34 sem ekki höfðu kosningarétt, töluðu ekki íslensku, voru of veikir til að svara eða látnir og var endanlegt úrtak því 1066 og svarhlutfall 56,6%.

Í könnuninni var einnig spurt: „Ertu almennt hlynnt(ur) eða andvígur því að Guðlaugur Þór Þórðarson víki af lista Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður?" Af þeim er tóku afstöðu til þessarar spurningar eru 49,3% mjög eða frekar hlynntir því að Guðlaugur Þór víki en 21,5% andvígir. Tæplega 30% eru hvorki hlynntir né andvígir því að hann víki af listanum. Þegar afstaðan til Guðlaugs er skoðuð eftir því hvaða flokk kjósendur ætla að kjósa, þá segjast 27,3% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vera mjög eða frekar hlynntir því að Guðlaugur víki, 50,5% eru andvígir því og 22,2% eru hvorki hlynntir né andvígir. Um 34% kjósenda Framsóknarflokksins sögðust vera mjög eða frekar hlynntir því að Guðlaugur víki, 53,2% kjósenda Samfylkingar og 63,6% kjósenda Vinstri grænna.

Að lokum var spurt um afstöðu fólks til lýðræðis og virkni þess á Íslandi. Fyrst var spurt: „Ertu almennt ánægð(ur), frekar ánægð(ur), ekki mjög ánægð(ur) eða alls ekki ánægð(ur) með hvernig lýðræðið virkar á Íslandi?". Í framhaldi var spurt hversu sammála eða ósammála fólk væri eftirfarandi tveimur staðhæfingum: „Lýðræði er ekki gallalaust, en er samt sem áður besta stjórnarform sem völ er á," og „Íslandi er í megindráttum stjórnað í samræmi við vilja fólksins."

Í tilkynningu frá Rannsóknamiðstöðinni segir:

„Í ljós kemur að 64,2% eru ósammála því að Íslandi sé í megindráttum stjórnað í samræmi við vilja fólksins og 74,9% svarenda eru ekki mjög eða alls ekki ánægðir með hvernig lýðræðið virkar á Íslandi. Þegar þessar tölur eru bornar saman við kosningarannsókn Ólafs Þ. Harðarsonar frá árinu 2007 sést glögglega að óánægja með framkvæmd lýðræðis á Íslandi hefur aukist til muna á þessum tveimur árum. Þrátt fyrir það, þá hefur meirihluti íslenskra kjósenda enn trú á lýðræði þar sem 92,6% voru því mjög eða frekar sammála að það sé besta stjórnarform sem völ er á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert