Vilja draga úr umsvifum forsetans

Enn er tekist á í sjónvarpssal og hafa nokkur skot …
Enn er tekist á í sjónvarpssal og hafa nokkur skot gengið á milli Ólafs Ragnars og Þóru Arnórsdóttur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í máli forsetaframbjóðenda í þættinum Barist um Bessastaði í kvöld kom fram gagnrýni á mikla dvöl Ólafs Ragnars erlendis í sinni embættistíð.

Forsetaframbjóðendur voru ennfremur spurðir um hverjar þeim þættu vera helstu brotalamirnar í íslensku samfélagi.

Þóra Arnórsdóttir svaraði á þann veg: „Við erum sammála um að hér eigi allir að lifa með reisn. Því markmiði hefur ekki verið náð. Sérstakar brotalamir finnast mér vera vantraust, tortryggni, leiði og neikvætt andrúmsloft. Stundum er eins og ómerkilegt þyki að tala um hvað skiptir okkur mestu máli í raun. Okkur þarf að líða vel í samfélaginu og það er gerð krafa á forsetann um að blása fólki kjark í brjóst og að hann huggi þegar á þarf að halda.“ Sem dæmi um samstöðu í gegnum erfiðleika nefndi hún eldgosið í fyrra, „Það er nærtækt að líta til íslenskra ferðaþjónustuaðila þegar gosið varð í fyrra, þeir þjöppuðu sér saman og með sameiginlegu átaki komu þeir firnasterkir út úr erfiðleikunum og fékk Inspired by Iceland átakið til að mynda gullveðlaun í Cannes. Þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi.“ 

Allir frambjóðendur voru inntir eftir því hvort þeim þyki rétt að forseti beiti sér í þágu ákveðinna hópa samfélagsins umfram aðra.

Hannes telur brýnt að forsetinn beiti sér fyrir hópa sem eiga minni möguleika á að verja sig, þar á meðal fátæka og þá einstaklinga sem þurfa á mikilli hjálp að halda og eiga erfitt með að draga fram lífið. „Forsetinn á að tala fyrir hönd þess hóps,“ sagði Hannes.

Herdís svaraði spurningunni þannig: „Forsetinn á ekki að beita sér í þágu eins hóps umfram aðra, heldur beita sér í þágu þeirra hópa sem þurfa á því að halda. Ef raddir þeirra heyrast ekki á forsetinn að beita sér í þeirra þágu.“

Ólafur Ragnar sagði að forsetinn ætti að leggja áherslu á þá hópa sem mest þurfa á að halda. „Þeir sem búa við fátækt eiga að fá lausn sinna mála, forsetinn á líka að leggja áherslu á ungt fólk og nýjar hugmyndir, þá sem erfa landið og þau verk sem þau munu vinna í framtíðinni.“

Ari sagðist ekki myndu gera upp á milli mismunandi hópa. „Sem forseti myndi ég beita mér fyrir öllum hópum. Byggja þarf upp sátt, hvort sem um er að ræða landbyggð og höfuðborgarsvæði, ungt fólk, mennta- og atvinnuumál. Sem forseti mun ég beita mér meira innanlands en utan.“

Andrea sagði að forsetinn þyrfti að vera í góðu sambandi við þjóðina, „ég lít svo á að forsetinn sé forseti allra og þurfi að vera í góðu sambandi við þjóðina í heild. Ég tek undir að hann geti þurft að beita sér fyrir hönd þeirra sem ekki hafa tök á að gera það sjálfir. Ég fór í fjölskylduhjálp og var í áfalli eftir það, og geri mér grein fyrir að sums staðar er þörfin brýn.“

Þóra sagði að stundum gerðist þess þörf, „Hluti af starfsskyldu forseta er að sinna þeim sem geta ekki hjálpað sér sjálfir og starfa með þeim sem lægstar hafa raddirnar, og það myndi ég svo sannarlega gera. “

„Myndi ekki verja þriðjungi ársins utan landsteinanna“

Því næst voru frambjóðendur spurðir um kostnað við embættið og hvort umsvif embættisins færu minnkandi eða vaxandi á í þeirra embættistíð.

Herdís sagði að hægt væri að halda umsvifum góðum án þess að auka útgjöld. „Fátækt er orsök misskiptingar valds í krafti auðs. Tímarnir kalla á einfaldara lífsform og krafan er uppi um minnkuð útgjöld.“

Ólafur Ragnar svaraði á þessa leið: „Ég er stoltur af því að í minni embættistíð hefur starfsmönnum ekki fjölgað. Þetta tel ég vera fordæmi sem ráðuneyti og stjórnstofnanir ættu að taka til sín. Fjárframlög til forsetaembættisins eru eins og til minniháttar sýslumanns út á landi og það myndi ekki breytast næði ég kjöri.“

Ari sagðist sjá fyrir sér aukin umsvif á næstu árum. „Verkefnin eru mörg og ég sé fyrir mér meiri umsvif, færa verður fjármuni frá einu sviði til annars og gæta verður hagsýni svo að aðhaldið dragi ekki úr slagkraftinum.“

Andrea ræddi nauðsyn minnkandi umsvifa. „Ég myndi beita mér innanlands fyrir þeim verkefnum sem hér eru. Ég sé fram á minnkandi umsvif og tæki ég við embættinu myndi draga úr kostnaði við ferðalög erlendis.“

Þóra sagðist telja rétt að gæta hófsemi í rekstri embættisins. „Ég tel rétt að gæta hófsemi. Þótt mikilvægt sé að mynda tengsl erlendis mun ég ekki verja þriðjungi ársins utan landsteinanna,“ sagði hún.

Hannes svaraði á þann veg að hann hefði ekki nægilega þekkingu á rekstri embættisins og kostnaði við það til að geta svarað spurningunni á ábyrgan hátt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert