Fengju báðir 19 þingmenn

Fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að aukast. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í …
Fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að aukast. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkurinn eru með svipað fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup. Flokkarnir fengju 19 þingmenn hvor yrði gengið til kosninga nú.

Könnun Gallup, sem gerð var fyrir RÚV, var gerð frá síðustu mánaðamótum og lauk í gær. Samkvæmt henni er Sjálfstæðisflokkurinn nú með 26,8% fylgi, þremur prósentustigum minna en í könnun Gallup sem birtist í upphafi febrúar. Framsóknarflokkurinn heldur hins vegar áfram að bæta við sig fylgi; mælist nú með 25,5% fylgi, var með 22,1% í síðustu könnun.

Samfylkingin dalar; er með 14% fylgi, var með 15,4% síðast og fylgi við Bjarta framtíð heldur áfram að minnka; var 16,2% í síðustu könnun, er núna 13.2%. Vinstri hreyfingin Grænt framboð bætir hins vegar við sig, er með 8,9% fylgi nú, var með 7,4% síðast.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil verið að mælast með 33-39% fylgi. Síðustu vikurnar hefur fylgi flokksins minnkað hins vegar í hverri könnuninni á fætur annarri og er núna 26,8%. Þetta er um 10 prósentustigum minna fylgi en hann var með um áramótin.

Framsóknarflokkurinn hefur mestallt kjörtímabilið verið með svipað fylgi og hann var með í síðustu kosningum en þá fékk hann 14,8% atkvæða. Í byrjun þessa árs fór fylgi flokksins að aukast og er núna 25,5%. Fylgið hefur aukist um 12 prósentustig frá áramótum.

Stuðningur við stjórnarflokkana, Samfylkingu og VG, hefur dalað mestallt kjörtímabilið. Litlar breytingar hafa orðið á því allra síðustu vikurnar.

Stuðningur við Bjarta framtíð hefur í vetur mælst mestur allra nýju framboðanna. Um tíma mældist flokkurinn næststærstur. Stuðningurinn hefur hins vegar verið að dala í síðustu könnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert