Stjórnarskrármálið komið í öngstræti

Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður.
Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Eftir fund minn með þingflokksformönnum og forseta þingsins í gærkvöld er ljóst að málefni stjórnarskrárinnar er komið í þannig öngstræti að þingið mun ekki einu sinni geta afgreitt þau ákvæði sem við tókum sérstaklega út fyrir sviga og báðum þjóðina um sérstakt álit á í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á Facebook-síðu sinni í morgun. Hún segir að formenn stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi ætla að hittast í dag og fara yfir málið en að henni sé ekki boðið á þann fund. Þá hafi nýir formenn ríkisstjórnarflokkanna, Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir, ekki séð ástæðu til þess að ræða við hana um málið.

„Ég hef boðið hófsama leið út úr þessari ófæru fjallabaksleið því annað þætti mér svo alvarlegt brot á grundvallarreglu samfélagsins að ég finn eiginlega ekki orð yfir sorg mína að horfa upp á það,“ segir Birgitta. Hún segir skringilegt að á sama tíma og þingmenn úr röðum ríkisstjórnarflokkanna skuli skammist út í Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn fyrir að kalla þjóðaratkvæðagreiðsluna síðastliðið haust, um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, skoðanakönnun „á meðan þau í verki gera þessa atkvæðagreiðslu að nákvæmlega því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert