Tók því ekki fyrir tvo mánuði

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var bara niðurstaða okkar að breyta þessu ekki þar sem það er svo stutt eftir af ríkisstjórnartímabilinu. Mér fannst einhvern veginn óþarfi að gera sjálfa mig að staðgengli forsætisráðherra fyrir tvo mánuði,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag að á meðan Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sé stödd erlendis sé Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og forveri Katrínar á stóli formanns VG, starfandi forsætisráðherra. Steingrímur leysti Jóhönnu allajafna af á kjörtímabilinu við slíkar aðstæður á meðan hann var formaður VG og þar með annar oddviti ríkisstjórnarinnar.

„Það var bara okkar samkomulag að hafa þetta svona fyrst það er svona stutt eftir af kjörtímabilinu. Við skiptum heldur ekki um sæti við ríkisstjórnarborðið eins og við hefðum annars átt að gera. Mér fannst það bara einhvern veginn ekki taka því fyrir tvo mánuði,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert