16% kusu flokk sem ekki fær mann kjörinn

Talsverð spenna ríkir um hvort Píratar fá nægilega mörg atkvæði …
Talsverð spenna ríkir um hvort Píratar fá nægilega mörg atkvæði til að fá menn kjörna á þing. Á myndinni er Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef Pírötum tekst ekki að ná manni á þing eru horfur á að um 16% þeirra sem kusu í kosningunum hafi kosið flokka sem ekki náðu manni á þing.

Píratar voru með fjóra menn kjörna samkvæmt fyrstu tölum, en eftir að aðrar tölur í Suðvesturkjördæmi voru birtar duttu þeir út. Þeir þurfa hins vegar ekki að bæta við sig miklu fylgi til að þessi fjórir menn detti inn aftur, en flokkurinn þarf að ná að lágmarki 5% fylgi til að fá menn kjörna.

Með 50% atkvæða en 62% þingmanna

Samkvæmt tölunum eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur með samtals rúmlega 50% atkvæða. Þeir fá hins vegar samtals 39 þingmenn sem er um 62% þingheims. Þessar tölur geta breyst eftir því sem líður á talninguna.

Ef minni flokkarnir hefðu sameinast í eitt framboð sem hefði fengið 16% fylgi hefði það skilað flokknum 10 þingmönnum.

Í síðustu kosningum skiluðu 3,2% kjósenda auðu. Flest bendir til að auðir seðlar séu færri í þessum kosningum. Það þarf ekki að koma á óvart enda eru framboðin nú mun fleiri en síðast og því úr nógu að velja fyrir kjósendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert