Hefur haldist misvel á sameiningartákni

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði, fræðir viðstadda um forsetaembættið …
Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði, fræðir viðstadda um forsetaembættið á hádegisfundi í Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Íslendingar sáu forsetann frá upphafi sem sameiningartákn og honum hefur haldist misvel á því í gegnum tíðina. Forsetinn átti að geta sveiflað pólitísku vopni öðru hverju en um leið haldið á sameiningartákninu, að sögn Guðna Th. Jóhannessonar, lektors í sagnfræði.

Hann var frummælandi á fundi í Háskóla Íslands í hádeginu á föstudag þar sem umfjöllunarefnið var hugmyndin um forseta Íslands sem sameiningartákn. Guðni hefur verið orðaður við forsetaframboð en tekið var fram strax í byrjun fundar að hann og efni hans hafi verið ákveðið fyrir löngu. Ekki væri um kosningafund að ræða.

Sjálfur sagði Guðni að frá því að fundurinn var ákveðinn hafi mikið vatn runnið til sjávar. Stjórnmálakrísa hafi komið upp „og ég er sjálfur farinn að ganga um með hálstau dags daglega,“ sagði hann við mikla kátínu áhlýðenda.

Ópólitískur og fyllti Íslendinga stolti

Fór Guðni yfir sögu forsetaembættisins og rakti hugmyndir um að hann yrði sameiningartákn sem væri ekki á pólitískum vettvangi. Forsetinn væri einhver sem fyllti Íslendinga stolti og sýndi öðrum þjóðum að við værum þjóð á meðal þjóða og stæðum þeim jafnfætis.

Þrátt fyrir að Sveinn Björnsson hafi látið til sín taka, skipað utanþingsstjórn og hafnað lausnarbréfi forsætisráðherra sagði Guðni að vilji hafi verið til að líta á hann sem sameiningartákn þjóðarinnar.

Þegar hann lést í embætti árið 1952 börðust Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur, og Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, um að verða arftakar hans. Bjarni var frambjóðandi þáverandi stjórnarflokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ásgeir hafi hins vegar stillt sér upp sem ópólitískur forseti. Hafði hann sigur með naumindum. Benti Guðni á kaldhæðni þess að Ásgeir, sem sat lengi á þingi, hafi verið hinn ópólitíski frambjóðandi en Bjarni, sem hafði lítið komi nálægt stjórnmálum, hafi verið talinn pólitískur.

Það var þétt setið í Odda þegar Guðni Th. ræddi …
Það var þétt setið í Odda þegar Guðni Th. ræddi um forsetaembættið og ljóst að áheyrendum var skemmt. mbl.is/Golli

„Oh, what a beautiful morning...“

Ásgeir sat í fjögur kjörtímabil og var sameiningartákn, að sögn Guðna. Árið 1968 hafði Kristján Eldjárn betur gegn Gunnari Thoroddsen sem hafði unnið að því lengi að komast á Bessastaði og hafði mikla reynslu úr stjórnmálum. Kristján hafi hins vegar verið alþýðlegri og rímað betur við hugmyndir Íslendinga um ópólitískt sameiningartákn.

Kristján hafi verið afar ópólitískur við stjórnarmyndanir jafnvel þó að í embættistíð hans hafi verið nær samfelld stjórnarkreppa. Nefndi Guðni dæmi um þetta frá árinu 1980 þegar fulltrúar allra flokka hafi reynt og mistekist að mynda nýja stjórn. Þá hafi blasað við að forsetinn myndaði utanþingsstjórn en það hafi Kristján allra síst viljað gera.

Gunnar Thoroddsen skar Kristján hins vegar úr snörunni þegar hann klauf Sjálfstæðisflokkinn og myndaði nýja ríkisstjórn. Lýsti Guðni upptöku sem Kristján gerði við það tilefni þar sem hann lýsti létti sínum yfir því að þurfa ekki að mynda utanþingsstjórn. Þegar Guðni hlustaði á upptökuna, líklega fyrstur manna, hafi hann átt von á að Kristján myndi vitna í Njálu eða fornsögurnar. Orðin sem Kristjáni komu í huga voru hins vegar:

„Oh, what a beautiful morning. Oh, what a beautiful day. I've got a beautiful feeling. Everyhing's going my way,“ úr söngleiknum Oklahoma.

Vigdís Finnbogadóttir hafi síðan í sinni forsetatíð valið sameiningartekið frekar en að stíga inn á pólitíska sviðið þegar í odda skarst. Það hafi sést vel í deilum um evrópska efnahagssvæðið árið 1993 þegar 30.000 manns skoruðu á Vigdísi að synja lögunum staðfestingar.

„Kjörkenning“ stjórnmálaforystu landsins

Þegar Guðni kenndi kúrs í háskólanum fyrir nokkrum árum tók Ólafur Ragnar Grímsson við nemendum hans á Bessastöðum. Þar segir Guðni að forsetinn hafi talað um hugmyndina um sameiningartákn sem „kjörkenningu“ pólitískrar forystu landsins um að forsetinn skuli ekki gera neitt sem henni mislíkar. Fullkomlega ómögulegt sé að gegna embættinu þannig að allir séu alltaf ánægðir.

Ólafur Ragnar hafi skilgreint sameiningartáknið sem svo að framganga forseta þyrfti að vera þannig að þorri þjóðarinnar væri sæmilega ánægður að jafnaði. Guðni sagði að það væri mögulega nothæf skilgreining á sameiningartákninu.

„Og fyrir aftan bætum við kannski við: Copyright Ólafur Ragnar Grímsson,“ sagði Guðni sem taldi að Ólafur Ragnar hafi sýnt að hægt væri að færa embættið inn á hið pólitíska svið en samt halda í hugmyndina um sameiningartáknið.

Guðni Th. Jóhannesson leggur áherslu á orð sín á fundinum …
Guðni Th. Jóhannesson leggur áherslu á orð sín á fundinum í Háskóla Íslands. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert