Segir pólitískan stöðugleika í landinu

Á Íslandi þarf að ríkja meiri jöfnuður en í öðrum …
Á Íslandi þarf að ríkja meiri jöfnuður en í öðrum löndum, segir Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Forsetinn er sammála okkur í ríkisstjórninni um mikilvægi þess að hafa pólitískan stöðuleika. Því ákalli sem gekk hér yfir þegar forsætisráðherra fyrrum steig til hliðar þá tókum við höndum saman og settum saman ríkisstjórn á örfáum dögum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra aðspurður um orð forsetans í dag þar sem hann sagði að ein ástæða fyrir framboði hans væri sú að stjórnmálaástand í landinu væri viðkvæm.

Sigurður segir að í landinu sé pólitískur stöðugleiki og sjáist það m.a. í því að vantrausttillaga stjórnarandstöðunnar hafi verið felld.  „Í landinu er pólitískur stöðuleiki og ég býst við því að forsetinn sé að vísa til þess að það sé mikilvægt að slíkt sé,“ segir Sigurður Ingi.

Aðspurður hvort að framboð Ólafs Ragnars hafi komið honum á óvart segir Sigurður Ingi það erfitt að segja.

„En eftir yfirlýsingar hans áður og þann fjölda sem hefur boðið sig fram þá hefur maður séð og heyrt hafa áhyggjur af því að hér gæti verið kosinn forseti með mjög lítilli hlutdeild og það hefði orðið áhyggjuefni ef það hefði verið niðurstaðan. Nú á eftir að kjósa en með framboði sitjandi forseta þá helst áframhald á stöðuleika á stjórnkerfinu.“

Sigurður Ingi segir að hann hafi átt gott samstarf við Ólaf Ragnar síðustu ár og að svo virðist sem það sé kraftur í honum til þess að sinna framboðinu.

„Ég gat ekki séð annað en að þarna væri ferskur maður á ferð,“ segir Sigurður Ingi. „Við höfum átt gott samstarf á liðnum árum og ég kvíði því ekki, verði það niðurstaðan að hann verði endurkjörin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert