Tekið við listum frambjóðenda

Forsetaframbjóðandinn Guðrún Margrét Pálsdóttir kom sjálf með meðmælalista sína.
Forsetaframbjóðandinn Guðrún Margrét Pálsdóttir kom sjálf með meðmælalista sína. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Tekið hefur verið við listum meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag en yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæma suður og norður veita þeim viðtöku.

Yfirkjörstjórnir munu í kjölfarið fara yfir listana og kanna hvort þeir séu réttir og hvort einhverjir hafi ritað undir fleiri en einn lista. Komi það í ljós ógildast allar undirritanir viðkomandi. Þó ekki takist að skila inn listum í dag er ekki öll nótt úti en framboðsfrestur rennur út á miðnætti 20. maí. Fyrir þann tíma þurfa yfirkjörstjórnir að hafa yfirfarið og vottað listana og skilað þeim til innanríkisráðuneytisins.

Haft var eftir Sveini Sveinssyni, formanni yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að frambjóðendur hafi tíma fram í miðja næstu viku til þess að skila inn fullnægjandi meðmælendalistum. 

Fram kemur á vefsíðu Reykjavíkurborgar að fulltrúar Guðna Th. Jóhannessonar hafi fyrstir skilað inn meðmælendalistum en í kjölfarið hafi aðrir frambjóðendur eða fulltrúar þeirra einnig mætt á staðinn hver á fætur öðrum.

Tekið verður við listum til klukkan 15:00 í dag. Stefnt er að því að vottorð yfirkjörstjórnanna verði afhent á fundi 20. maí klukkan 13:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert