Finnst forsetinn skipta máli

Svarendum könnunar Maskínu þykir forsetaembættið mikilvægt í íslenskri stjórnskipan.
Svarendum könnunar Maskínu þykir forsetaembættið mikilvægt í íslenskri stjórnskipan. mbl.is/Eggert

Tveimur af hverjum þremur Íslendingum finnst forsetaembættið skipta máli ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu. Tæpum þriðjungi finnst embættið nauðsynlegt íslensku stjórnkerfi. Engu að síður vilja 12% leggja það niður og nærri því þriðjungi finnst embættið litlu skipta.

Kjósendum Framsóknarflokksins finnst embættið nauðsynlegra en kjósendum annarra flokka. Einungis um 16% kjósenda Vinstri grænna finnst forsetaembættið nauðsynlegt í íslensku stjórnkerfi.

Þeim sem ætla að kjósa Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og mbl.is, sem forseta finnst embættið mun mikilvægara en þeim sem styðja aðra frambjóðendur samkvæmt könnuninni. Um það bil fimmtungi kjósenda Davíðs finnst embættið litlu skipta eða að leggja ætti það niður. Á hinn bóginn eru 42-43% þeirra sem ætla að kjósa Andra Snæ Magnason þeirrar skoðunar.

Eftir því sem svarendur eru óánægðari með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, fráfarandi forseta, að draga framboð sitt til baka því mikilvægara finnst þeim embættið sem hann yfirgefur brátt.

Körlum virðist þykja meira til embættis forseta koma en konum. Rúmur þriðjungur karla telur embættið nauðsynlegt en 26% kvenna. Nær sama hlutfall beggja kynja vilja leggja embættið niður.

Enginn framsóknarmaður óánægður með Ólaf Ragnar

Þátttakendur í könnuninni voru einnig spurðir að því hversu ánægðir þeir væru með störf Ólafs Ragnars á þeim tuttugu árum sem hann hefur gegnt embætti forseta. Sögðust 63-64% ánægð með þau, þar af um þriðjungur mjög ánægður. Tæplega 15% sögðust óánægð með störf forsetans.

Reykvíkingar og Austfirðingar eru óánægðari með störf Ólafs Ragnar en aðrir. Þannig reyndist fimmtungur Reykvíkinga óánægður með forsetann og fjórðungur Austfirðinga. Ánægja með störf forsetans fer minnkandi með aukinni menntun svarenda.

Kjósendur stjórnarflokkanna voru mun ánægðari með störf Ólafs Ragnar en þeir sem styðja aðra flokka. Þannig voru 92,3% kjósenda Framsóknarflokksins ánægðir með Ólaf Ragnar og 86,4% sjálfstæðismanna. Ekki einn einasti framsóknarmaður var óánægður með störf forsetans. 

Meirihluti kjósenda Bjartrar framtíðar og Pírata voru ánægðir með störf Ólafs Ragnar. Á meðal samfylkingarfólks voru 48% ánægð og 35,1% hjá vinstri-grænum.

Af kjósendum í forsetakosningunum í sumar eru þeir sem styðja ritstjóra Morgunblaðsins ánægðastir með störf Ólafs Ragnars eða 86,5%. Stuðningsmönnum Andra Snæs þykir minnst til starfa forsetans koma en aðeins 41,8% þeirra voru ánægðir með hann.

Könnun Maskínu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert