Hver var Hildur í fyrra lífi?

Hildur Þórðardóttir forsetaframbjóðandi.
Hildur Þórðardóttir forsetaframbjóðandi. Ljósmynd/ Hildur Þórðardóttir.

Forsetaframbjóðandinn Hildur Þórðardóttir sat fyrir svörum í beinni útsendingu á Facebook Nova í dag. Fyrir hafa Halla Tómasdóttir, Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson svarað spurningum Facebook-notenda í beinni á vegum fyrirtækisins og hefur uppátækið mælst vel fyrir.

Aðspurð um forsetaembættið sagðist Hildur, sem er þjóðfræðingur, rithöfundur og heilari, standa fyrir frið í samfélaginu og samvinnu á Alþingi sem og í samfélaginu almennt. Þegar spurt var um stöðu heilbrigðiskerfisins sagði hún Íslendinga nokkuð á eftir nágrannaþjóðum sínum, m.a. hvað varðaði upptöku austrænna lækninga meðfram þeim vestrænu. Sagði hún heilanir og orkulækningar í notkun meðfram lyfjameðferðum og skurðlækningum í Bandaríkjunum og Þýskalandi.

„Við þurfum ekki að vera hrædd við austrænar lækningar, annað útilokar ekki hitt og mér finnst mikilvægt að við tökum það besta úr báðum og notum það saman.“

Hildur fékk einnig spurningu um hver hún hefði verið í fyrra lífi. Sagðist hún í fyrstu eiga erfitt með að svara þeirri spurningu, enda hefðu lífin verið svo mörg, en að fyrri líf væru einmitt sérstakt áhugamál hennar og henni þætti gaman að fara í dáleiðslu.

„Fyrir mér er þetta bara skemmtilegt, bara áhugamál hvort sem þetta er satt eða ekki, bara eins og ævintýri, eins og þjóðsögurnar (...) sumir eru þannig að þeir trúa engu nema þeir geti snert það. Ég tek öllu svona sem ævintýri, einu stóru ævintýri. (...) sumir spila golf, mér finnst gaman að spá í fyrri líf.“

Svarið um hver hún var í fyrra lífi kom þó ekki.

Með 200 þúsund í mánaðarlaun

Meðal annarra spurninga sem Hildur fékk var um afstöðu gagnvart aðskilnaði ríkis og kirkju og sagðist Hildur vilja leggja það í dóm þjóðarinnar. Þá sagðist hún ekki telja að nauðsynlegt væri að velja á milli flóttafólks og heilbrigðiskerfisins. Meðal síðustu spurninganna var spurning um hvort hún hefði kynnst því að hafa lítið á milli handanna.

„Algjörlega! Þið sjáið það að ég er búin að vera með 200 þúsund kall í laun í marga mánuði. Ég bara lifi mjög spart, ég fer aldrei í bíó til dæmis, aldrei út að borða, sker við mig allt sem þarf en þetta geri ég líka af hugsjón vegna þess að ég vil frekar vera í minna starfi og skrifa. Ef ég fæ að skrifa, þá er ég glöð.“

Næstur í útsendingardagskrá Nova er Andri Snær Magnason sem sitja mun fyrir svörum á þriðjudag en einnig mun Ástþór Magnússon svara spurningum í beinni á fimmtudag.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert