Guðni með mest fylgi

Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi.
Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi.

Guðni Th. Jóhannesson er með 60,6% fylgi í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis þegar að átján dagar eru til forsetakosninga. Davíð Oddsson er með 17,7% fylgi, Andri Snær Magnason 10,9% og Halla Tómasdóttir 7,3%. Aðrir frambjóðendur mælast með minna fylgi.

Vika er liðin síðan síðasta könnun birtist í Fréttablaðinu og helst fylgi frambjóðendanna nánast óbreytt síðan þá. Breytingin á fylgi frambjóðendanna er í öllum tilfellum innan vikmarka.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Andri Snær er með umtalsvert meiri stuðning meðal kvenna en karla en 13% kvenna sem tóku afstöðu sögðust myndu kjósa hann en 8,6% karla. Þá er Guðni einnig með meira fylgi meðal kvenna en 67% kvenna styðja hann á móti tæpum 54% karla. Halla Tómasdóttir nýtur stuðnings 8,4% karla en 6,2% kvenna.

Þá styðja 24,8% karla Davíð en 11,1% kvenna. 

Í Fréttablaðinu kemur fram að könnunin hafi verið gerð í gærkvöldi, mánudagskvöldið 6. júní. Hringt var í 924 manns þar til náðist í 800 og var svarhlutfallið því 86,6 prósent. Spurt var: Ef forsetakosningar færu fram á morgun, hvern myndir þú kjósa? Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá en 67,3 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu til spurningarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert