Útilokar ekki annað framboð

Halla þakkaði stuðningsmönnum kærlega fyrir.
Halla þakkaði stuðningsmönnum kærlega fyrir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Höllu Tómasdóttur var vel fagnað þegar hún mætti á kosningavöku sína nú fyrir stundu.

Stuðningsmenn sungu „ég er kominn heim“ hátt og snjallt á meðan Halla gekk í hús og klöppuðu í gríð og erg. Halla hlaut fylgi langt umfram það sem við var að búast samkvæmt skoðanakönnunum fyrir kosningar.

„Ef við erum ekki sigurvegarar, þá veit ég ekki hver er það," segir Halla í ávarpi sínu við stuðningsmenn. „Við lögðum af stað með fjögur markmið; að gera gagn, gera það með gleði, hafa gagnsæi um allar spurningar sem koma fram og við ætluðum að taka girl-power á þetta alla leið,“ sagði Halla við mikinn fögnuð viðstaddra. 

„Mér finnst ég hafa unnið og mér fannst það áður en fyrstu tölur voru kynntar,“ sagði Halla í samtali við mbl.is. Hún fyndi að baráttumál sín hefðu hlotið hljómgrunn og fyndi fyrir miklum stuðningi og það væri sigur út af fyrir sig.

„Þetta ferðalag hefur verið frábært, ég hef lært mikið um sjálfa mig og okkar samfélag,“ segir Halla en hún er þakklát og ánægð með ferlið.

Frá kosningavöku Höllu Tómasdóttur.
Frá kosningavöku Höllu Tómasdóttur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég hef verið spurð að þessu áður og sagði alltaf að ég ætlaði ekkert að segja neitt um það fyrr en leikurinn væri búinn, og hann er ekki enn alveg búinn þótt líkurnar bendi til þess,“ segir Halla um hvort hún hyggist gefa kost á sér aftur í næstu kosningum til forseta Íslands. Hún útilokar ekki að hún muni fara fram á nýjan leik en telur þó líklegra að hún geri það ekki eins og landið liggur núna, það fari eftir aðstæðum þegar þar að kemur.

Halla hyggst halda áfram sem alþjóðlegur fyrirlesari, er með bók í farteskinu sem hún stefnir á að ljúka og segist hafa nóg á sinni könnu þegar þessu ferðalagi er lokið. 

Næst á dagskrá hjá Höllu er að sofa vel út, fara í sumarfrí með fjölskyldunni og hvetja íslenska fótboltalandsliðið til dáða í leik þeirra gegn Englandi á EM á mánudag. „Áfram Ísland!“ segir Halla að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert