Gæti þurft þrjá til fjóra flokka

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Tveggja flokka ríkisstjórn að loknum næstu þingkosningum, sem fyrirhugaðar eru í haust, er ekki í kortunum miðað við niðurstöður síðustu skoðanakannana Gallup og MMR nema Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar komi sér saman um stjórnarsamstarf. Þrír eða fleiri flokkar þurfa annars að koma að mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi að lokum kosningunum.

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar gætu myndað þriggja flokka ríkisstjórnir með tveimur af öðrum flokkum. Að undanskilinni Bjartri framtíð. Píratar gætu til dæmis myndað stjórn með Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Þeir gætu líka skipt Samfylkingunni út fyrir Viðreisn. Það sama á við um Sjálfstæðisflokkinn. Það er ef aðeins er horft í tölurnar og framhjá öllum mögulegum hugmyndafræðilegum ágreiningi á milli flokkanna.

Stjórn án Pírata og sjálfstæðismanna ekki möguleg

Þriggja flokka stjórnir yrðu hins vegar í öllum tilfellum með frekar nauman þingmeirihluta. Hugsanlega gæti því verið talið rétt að bæta fjórða flokknum við til þess að styrkja þann fjölda þingmanna sem hugsanleg ríkisstjórn gæti stutt sig við. Þó að stjórnarþingmenn yrðu þar með fleiri gæti það hæglega veikt stjórnina að þurfa að sætta fleiri sjónarmið innan hennar. Það færi hins vegar allt eftir því hversu vel mögulegum stjórnarflokkum gengi að starfa saman.

Ríkisstjórn án þátttöku annaðhvort Sjálfstæðisflokksins eða Pírata er hins vegar ekki möguleg eins og kannanir eru í dag. Það er að segja ef stjórnin á að hafa meirihluta þingsins að baki sér. Nema ef um minnihlutastjórn yrði að ræða en nær engin hefð er fyrir slíkum stjórnum hér á landi. Slíkar stjórnir hafa heyrt til algerra undantekninga og ekki verið langlífar. Þetta stjórnarfyrirkomulag er hins vegar vel þekkt annars staðar á Norðurlöndunum.

Minnihlutastjórnir hafa eins og nafnið gefur til kynna minnihluta þingmanna að baki sér en reiða sig þess í stað á flokka í stjórnarandstöðunni til þess að koma málum í gegnum þingið. Annaðhvort sama flokkinn eða flokkana en einnig kann minnihlutastjórn að reiða sig á stuðning mismunandi flokka eftir því hvaða mál er um að ræða. Styrkur minnihlutastjórna er að ekki þarf að sætta eins mörg sjónarmið innan þeirra en veikleiki að þær geta ekki reitt sig á eins öruggan þingmeirihluta.

Stjórnarkreppa gæti kallað á aðkomu forsetans

Ekki liggur enn fyrir hvenær næstu þingkosningar fara fram en flestir reikna með að það verði í október. Þá líklega í lok mánaðarins, 22. eða 29. þess mánaðar. Ljóst er að margt getur gerst fram að því. Framboðslistar flokkanna liggja ekki fyrir og hugsanlegt er að framsóknarmenn haldi flokksþing fyrir kosningarnar þar sem stefna Framsóknarflokksins verður tekin til endurskoðunar og hugsanlega einnig gerðar breytingar á forystu flokksins.

Þetta og fleira getur hæglega haft áhrif á þróun fylgis flokkanna fram að kosningum. Fylgið gæti dreifst víðar og á fleiri flokka en þá sem nefndir hafa verið til sögunnar hér að ofan. Ef sú staða kæmi upp að ekki tækist að mynda starfhæfa ríkisstjórn yrði stjórnarkreppa. Það gæti þýtt að kjósa yrði aftur en einnig er sá möguleiki fyrir hendi að forsetinn myndaði utanþingsstjórn. Til þess hefur þó ekki komið síðan árið 1942 og sat sú stjórn fram í október 1944.

Skoða má nýjustu skoðanakannanir á fylgi flokkanna myndrænt hér til hægri.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert