Snýst um fólk ekki vandamál

mbl.is/Jón H. Sigurmundsson

„Þetta snýst um fólk ekki vandamál,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, frambjóðandi VG, á fundi með frambjóðendum tíu stjórnmálaflokka í morgun þar sem umræðuefnið voru innflytjendur og málefni þeim tengd. Vísaði Kolbeinn til þess að stundum sé talað um innflytjendavandamál.

Það er ekkert innflytjendavandamál og eitthvað sem ekki á að tala um á þann hátt. Þetta snýst um fólk ekki vandamál, sagði Kolbeinn meðal annars í erindi sínu á fundinum sem teymi um málefni innflytjenda stóð fyrir í menningarhúsinu Gerðubergi. 

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Skiptar skoðanir voru á málefni fundarins en allir frambjóðendur voru sammála um að það væri jákvætt að hingað flytti fólk og vildi búa hér. Frambjóðendurnir höfðu aftur á móti ólíka sýn á ýmsu sem viðkemur fólki sem hingað kemur og hvernig eigi að taka á móti því. Meðal annars varðandi aðlögun og kröfu um íslenskukunnáttu. Eitt af því sem frambjóðendur ræddu var félagslegt undirboð og skattaundanskot sem tengjast erlendum starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði?

Stuðlar að fjölbreyttara og skemmtilegra samfélagi

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og frambjóðandi Framsóknarflokksins, segir að innflytjendur stuðli að fjölbreyttara og skemmtilegra samfélagi hér á landi og benti á að flestar fjölskyldur á Íslandi hafa annað hvort búið erlendis eða eru með tengsl við einhverja sem hafa búið erlendis.

„Allt þetta fólk, það er innflytjendur, skiptir okkur máli. Við þurfum á fólki að halda meðal annars vegna stöðu á vinnumarkaði. Ég vil sjá Ísland þróast í þessa átt, að verða fjölbreyttara og skemmtilegra samfélag,“ sagði Eygló í ávarpi sínu á fundinum.

Hún kom inn á móttöku flóttafólks hér og flökkusögur sem í gangi eru varðandi stuðning við hælisleitendur á Íslandi. Það sé misskilningur að þeir búi við betri kjör en lífeyrisþegar heldur fái þeir sambærilegan stuðning og fjárhagsleg aðstoð sveitarfélaganna kveður á um.

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hún telur mikilvægt að leggja áherslu á samstarf við aðila vinnumarkaðarins varðandi félagslegt undirboð og skattaundanskot sem tengjast erlendum starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði. 

Ísland á svipuðum stað og Tyrkland

Pawel Bartoszek, frambjóðandi Viðreisnar, fór í stuttu máli yfir það þegar hann flutti hingað til lands átta ára gamall árið 1988. Á þeim tíma var hann eini nemandinn af erlendum uppruna í bekknum og hann lærði íslensku hjá bekkjarfélögum.

Hann segir að faðir hans hafi komið hingað til landsins sem námsmaður í íslensku fyrir erlenda stúdenta, frá þriðja ríki, kommúnistaríki á þessum tíma. Hann fékk að taka með sér fjölskyldu en það er ekki í boði í dag, segirPawel.

Pawel Bartoszek.
Pawel Bartoszek.

Hann segir það stefnu Viðreisnar að taka á móti fólki, hvort heldur sem er frá Evrópu eða annars staðar frá. Auðvelda eigi fólki sem kemur frá ríkjum utan evrópska efnahagssvæðisins að koma hingað. Pawel segir að Ísland sé alls ekki á pari við hin Norðurlöndin hvað varðar mælikvarða á hversu vinveitt ríki eru gagnvart innflytjendum. Svíþjóð er þar í fyrsta sæti en Ísland er í 23 sæti ásamt Tyrkjum, Ungverjum og Rúmenum. „Við erum einfaldlega þegar kemur að innflytjendum miklu íhaldssamari í þessum efnum og þessu vill Viðreisn breyta.“

Samfélag án fordóma

Nichole Leigh Mosty, frambjóðandi Bjartrar framtíðar, ræddi meðal annars um réttindi barna sem eru tvítyngd og rétt þeirra á kennslu á móðurmáli. Hún segir að Björt framtíð vilji sjá aukna fræðslu og kennslu í íslensku fyrir innflytjendur. Samfélag án fordóma.

Nichole Leigh Mosty.
Nichole Leigh Mosty.

Nichole segir víða pottur brotinn þegar kemur að réttindum útlendinga sem hér starfa. Eftirliti sé ekki sinnt nægjanlega og skilvirkni skortir. Það sjáist meðal annars á fréttum um mansal á íslenskum vinnumarkaði. Hún segist þekkja dæmi um að brotið sé harkalega á fólki varðandi réttindi þeirra á vinnumarkaði og spurði hvort þetta væri það Ísland sem við viljum? „Ekki það sem við viljum hjá Bjartri framtíð,“ sagði Nichole.

Ísland er land tækifæranna

SigríðurAndersen, alþingismaður og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, segir í sínum huga sé Ísland þegar orðið land tækifæranna og hefur verið um langa hríð.

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen.

Sem betur fer sé það þannig að fólk hefur leitað hingað til Íslands til þess að setjast að og hún segir að Íslendingar ættu að klóra sér í hausnum ef engir hælisleitendur kæmu hingað.

„Ég reyndar klóra mér stundum í hausnum yfir því að það er staðreynd að sumir þeirra sem koma hingað og sækja um hæli og fá neitun. þeir kæra þá ákvörðun ekki. Ég hef heyrt því fleygt stundum að það sé kannski vegna þess að þeir hafa ekki áhuga á að vera hér lengur. Mér finnst það leiðinlegt að heyra það en kannski það að þeir nenni ekki að slást við kerfið,“ sagði Sigríður á fundinum.

Að sögn Sigríðar eru innflytjendur dottnir á milli skips og bryggju í umræðunni og menn farnir að rugla saman innflytjendum flóttamönnum og hælisleitendum. Hún sagðist því fagna því að efni fundarins hafi verið málefni innflytjenda. 

Sigríður segist ekki viss um hvort það er hægt gera kröfu um aðlögun innflytjenda og ekki heldur kröfu um íslenskukunnáttu. Ekki heppilegt að setja lög þar um en auðvitað eigi að bjóða fólki upp á tækifæri og hvatningu til þess að læra íslensku, sagði hún á fundinum..

Hælisleitendur fái tímabundið atvinnuleyfi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, frambjóðandi Pírata, er ein þeirra sem átti þátt í að móta stefnu Pírata í málefnum útlendinga. Hún segir hana vera grunnstefnu til lengri tíma, hvernig við lítum á innflytjendur og aðra útlendinga sem hingað koma eða vilja koma hingað.

Hún hefur áhyggjur af starfsmannaleigum sem flytja hingað starfsfólk í tímabundin verkefni. Fólk sem er ekki með neitt bakland og jafnvel brotið á réttindum þeirra. Það hefur ekki sömu sömu hvata og fólk sem hingað er komið og vill setjast að.

Þórhildur segir að það eigi að afnema þá stefnu að banna fólki að vinna sem er að bíða eftir afgreiðslu hælisumsókna sinna hér á landi. Veita eigi þeim tímabundið atvinnuleyfi og efla um leið eftirlit með starfsmannaleigum hér á landi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Umboðsmaður innflytjenda

Ragnar Sverrisson, frambjóðandi Húmanistaflokksins, býr í Kenía þar sem fjölmörg þjóðarbrot búa. Húmanistaflokkurinn vill opna landamæri í þá átt að engin landamæri verði í heiminum.

Að sögn Ragnars er mjög slæmt að fólki sem kemur hingað að vinna sé mismunað. Mikilvægt sé að auka ábyrgð verktaka gagnvart þriðja aðila.

Varðandi málefni innflytjenda sagði hann að bregðast eigi við innflytjendamálum á svipan hátt og  unglingavandamálum. Ekki eigi að banna unglinga ekkert frekar en innflytjendur og það þurfi að aðstoða þá við aðlögun. Ragnar segir að þeirra hugmynda sem Húmanistaflokkurinn hefur skoðað er hvort setja eigi á laggirnar embætti umboðsmanns innflytjenda.

Því miður er ekki til mynd af Ragnari Sverrissyni frambjóðanda …
Því miður er ekki til mynd af Ragnari Sverrissyni frambjóðanda Húmanistaflokksins í myndasafni mbl.is en þessu mynd var tekin á fundinum í morgun.

Það sé slæmt hversu mikill hræðsluáróður sé í íslensku samfélagi og mikið af staðreyndavillum. Þegar talað er um innflytjendavandann þá er mest horft til Evrópu en mörg þriðja heims ríki eru að taka á móti miklu fleiri flóttamönnum en Evrópubúar. Það er algjör hræsni að styðja hernaðarbandalög á sama tíma og við viljum ekki taka á móti þeim vanda sem þau eru að skapa og senda meðal annars fólk á flótta frá heimilum sínum.

Auka áherslu á keðjuábyrgð

Kolbeinn Óttarsson Proppé, frambjóðandi VG, fjallaði meðal annars um þjóðernisvitund í sínu erindi sem hann segir vera áunnið fyrirbæri sem samfélag kemur sér saman um að viðhalda. Stundum snúist umræðan á þann veg - við og þeir - líkt eins og forfeður Kolbeins gerðu en þeir stóðu vörð um mikilvægi íslenskar þjóðmenningu eftir að hafa komið hingað sem innflytjendur. 

„Hvernig komið er fram við þá sem eru smæstir í samfélaginu er grafalvarlegt mál,“ segir Kolbeinn. Hann rifjaði upp byggingu Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma þegar jafnvel var talað um mansal. Ýmislegt hafi breyst til batnaðar og að aðilar vinnumarkaðarins hafi tekið sig á sem og Útlendingastofnun þegar kemur að málefnum útlendinga sem hingað koma til starfa.

Kolbeinn segist vilja að misneyting á vinnuafli verði gerð saknæm á Íslandi og meiri áhersla verði lögð á keðjuábyrgð – það að undirverktakar geti ekki sagt sig frá ábyrgðinni. Líkt og Landsvirkjun hefur gert.

 Ekkert rými fyrir mismunun

Sema Erla Sedar, frambjóðandi Samfylkingarinnar, segir ekkert rými fyrir mismunun á tímum aukinnar hnattvæðingar og að fólki hafi verið auðveldað að ferðast milli landa. Það hafi orðið Íslandi til gæfu að hingað komi fólk sem hefur áhuga á að setjast hér að.

Sema Erla Sedar.
Sema Erla Sedar. Ljósmynd Sigurjón Ragnar

Það er mikið talað um að innflytjendur þurfi að aðlagast íslensku samfélagi. Að mínu mati er það röng nálgun á málefni innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins. Í raun þurfum við öll að samlagast breyttri samfélagsmynd og ábyrgðin á því að hér sé og verði raunverulega eitt samfélag fyrir alla er ekki síður á herðum yfirvalda en þeirra sem hingað koma og þar skipta móttökurnar mestu máli,“ segir hún en að um leið verði að gera fólki auðvelt fyrir að læra íslensku. 

Með vaxandi fjölmenningu í heiminum verði að vinna gegn þjóðernishyggju. Þetta sé eitthvað sem allir verða að vinna saman að. „Ábyrgð stjórnmálamanna er hér mikil. Við verðum að taka á þessum ótta og hatri. Ísland á að vera land okkar allra,“ sagði Sema á fundinum.

Þorvaldur Þorvaldsson, frambjóðandi Alþýðufylkingarinnar, segir að innflytjendur og flóttamenn komi ekki hingað á eigin forsendum. Ekki sé rætt um vanda flóttamanna heldur flóttamannavandann. Það sé stefna Alþýðufylkingarinnar að koma í veg fyrir stríð sem sendir fólk á flótta.

Þorvaldur Þorvaldsson.
Þorvaldur Þorvaldsson. Ljósmynd/Alþýðufylkingin

Að sögn Þorvaldar býr fólk sem hingað kemur til tímabundinna starfa við mjög bágbornar reglur. Starfsmannaleigur sem séu milliliður milli starfsmannsins og verktakans hirði drjúgan hluta af launum þeirra. Í nágrenni Húsavíkur sé ömurlegur vinnumarkaður í kringum þær framkvæmdir sem þar eru. „Þar sem mafíuaðferðum er beitt í ríku mæli og jafnvel líflátshótanir hafðar á lofi ef menn hafa ekki tilburði til að gæta hagsmuna þeirra,“ sagði Þorvaldur á fundinum.

Þorvaldur segir að það skipti gríðarlega miklu máli að taka hatursorðræðuna alvarlega – hana eigi ekki að líða. Hann segir að grunnur að hatursorðræðunni sé oft hjá fátæku fólki sem hefur lent í fátæktargildru. Ef slíkt fólk heyrir að innflytjendum sé hyglað, þó að það eigi ekki við rök að styðjast, þá skiptir það ekki máli. Því stundum er einfaldlega ekki hlustað á rök.

Gústaf Níelsson, frambjóðandi Íslensku þjóðfylkingarinnar, segir að flokkur hans leggi til að Ísland yfirgefi Schengen landamærasamstarfið. Þetta þurfi ekki að þýða að menn séu sneisafullir af útlendingaandúð. Ísland sé með traust náttúruleg landamæri sem eðlilegt er að Íslendingar hafi eftirlit með. Sannleikurinn sé sá að til Íslands hafa fjölmargir útlendingar, sest hér að og orðið góðir og gegnir Íslendingar. Þeir sem koma hingað koma af ólíkum forsendum. Sumir sem makar Íslendinga hælisleitendur eða námsmenn sem hafa ílengst. 

Íslenska þjóðfylkingin sé ekki að agnúast út í þetta fólk en þetta fólk hefur margt auðgað íslenskt samfélag, sagði Gústaf.

Gústaf Níelsson.
Gústaf Níelsson. Jim Smart

Hins vegar eru hér á sveimi ýmsir draumóramenn sem segja að jörðin er okkar ekki eigi að vera landamæri og það þýðir að 300 þúsund manna þjóð hverfi í mannhafið og tapar sjálfri sér. „Gott og vel ef það er stefna þá er það stefna í sjálfu sér en það er ekki stefna sem ég aðhyllist og ég geri nú ekki ráð fyrir því að það sé almennur vilji fyrir því meðal Íslendinga,“ sagði Gústav á fundinum.

Hann gerði þjóðríkið og velferðarkerfið að umræðuefni og segir að fara verði varlega í það hvernig við hleypum fólki inn í íslenska velferðarkerfið. Íslenska velferðarkerfið sé eitthvað sem Íslendingar hafi lengi unnið að uppbyggingu á. Að sögn Gústafs hefur aldrei verið nein útlendingaandúð á Íslandi og hann sjálfur sé ekki meiri sveitakarl en svo en hann haldi tvö heimili, hér á landi og í útlöndum.

Spurningar sem frambjóðendur fengu sendar fyrir fundinn:

Hvað hyggst þinn flokkur gera í málefnum innflytjenda og gagnkvæmrar aðlögunar?

Hvað hyggst þinn flokkur gera varðandi félagsleg undirboð og skattaundanskot, sem tengjast erlendum starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði? Hvaða verkefni eru brýnust í því samhengi og hvers vegna?

Hver er ábyrgð yfirvalda varðandi gagnkvæma aðlögun? Hvernig á að tryggja gagnkvæma aðlögun til langs tíma? Hvað er þar mikilvægast?

Hver eru hlutverk og ábyrgð stjórnmálaafla í samfélagslegri orðræðu um innflytjendur og vaxandi fjölbreytni í íslensku samfélagi?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert