Þyrftu að segja af sér þingmennsku

Forsvarsmenn flokkanna fimm hafa rætt um heildarmyndina á síðustu dögum.
Forsvarsmenn flokkanna fimm hafa rætt um heildarmyndina á síðustu dögum. mbl.is/Ófeigur

Verði fimm flokka stjórn að veruleika og einhverjir þingmenn Pírata taka við ráðherraembætti þurfa þeir að segja af sér þingmennsku, að sögn Birgittu Jónsdóttur. Sama gildi ekki um samstarfsflokkana. Hún telur ekki vont að hafa svo marga flokka við borðið í ríkisstjórn.

„Ég held að nú sé möguleiki á jafnræði. Það er ekkert vont að hafa fleiri við borðið heldur er það bara öðruvísi dýnamík,“ sagði Birgitta við Mbl.is en hún er í forsvari fyrir Pírata í stjórnarmyndunarviðræðum ásamt Smára McCarthy og Einar Brynjólfssyni.

Frétt mbl.is:Samþykkja form­leg­ar viðræður 

Vinstri-græn, Björt framtíð, Pírat­ar, Sam­fylk­ing­in og Viðreisn hafa ákveðið að hefja form­leg­ar stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður eft­ir fund­ar­höld síðustu tvo daga. Næstu dag­ar fara í sér­tækt mál­efn­astarf en enginn fastur tímarammi hefur verið gefinn. 

Birgitta segir það ekki vera neitt tiltökumál að fimm flokkar komi að ríkisstjórn. Allir sem setið hafa viðsamningaborð átti sig á að það sé ekki alltaf gott að hafa tvo flokka að semja þar sem annar aðilinn sé stærri eins og gilt hafi um íslenska ríkisstjórnarmyndun undanfarin skipti.

Ætla að breyta samþykktum

Spurð hvort Píratar setji það sem skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að þingmenn verði ekki ráðherrar segir hún það eitthvað sem flokkurinn leggi áherslu á fyrir sjálfan sig en geri ekki slíkar kröfur til samstarfsflokkanna. „Það eru kannski óbilgjarnar kröfur á aðra flokka varðandi hluti í tengslum við ráðuneyti en ef við Píratar ætlum að senda einhvern okkar þingmanna í ráðuneyti er ljóst að þeir þyrftu að segja af sér þingmennsku,“ segir Birgitta.

Hún segir að til standi að breyta samþykkt Pírata á reglum um þingmennsku og að gegna ráðherraembætti. Búið sé að boða til félagsfundar vegna málsins. Það komi svo í ljós hver endanleg skoðun Pírata sé á málinu þegar stjórnarsáttmáli verður borinn undir félagsmenn takist flokkunum fimm að mynda ríkisstjórn.

Að sögn Birgittu verður rætt um stærstu málin á morgun, til að mynda sjávarútvegskerfið, heilbrigðiskerfið, skattamál og breytingar á stjórnarskránni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert