„Þetta gengur ágætlega“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert

Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur fundað í dag en flokkurinn hefur verið í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum ásamt Sjálfstæðisflokki og Viðreisn síðan á mánudag. Óttarr Proppé, formaður BF, segir málin mjakast í rétta átt.

„Það er í sjálfu sér bara það sem maður hefur verið að segja alla vikuna. Þetta gengur ágætlega, þetta dýpkar og þessu miðar öllu í rétta átt,“ segir Óttarr í samtali við mbl.is en þingmenn hafa meðal annars skoðað drög að stjórnarsáttmála.

Brynjar Níelsson og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmenn Sjálfstæðisflokks, telja báðir að Sjálfstæðisflokkur ætti að fá fleiri en þá fimm sem um hefur verið rætt í fjölmiðlum. Óttarr vill lítið tjá sig um hversu mörg ráðuneyti hver flokkur myndi fá:

„Það eru allt saman einhverjar getgátur en það er ekki fullkomlega búið að ganga frá verkaskiptingu. Ég hef ekkert sérstaklega verið að fylgjast með yfirlýsingum manna um það.

Óttarr segist heldur ekki eiga sér neitt „óska“ráðuneyti. „Ég hef ekki sóst sérstaklega eftir neinu ráðuneyti. Ráðuneytin eru fyrst og fremst verkfæri til að sinna málefnunum,“ segir Óttar en hann gerir ráð fyrir því að formenn flokkanna þriggja verði áfram í sambandi þó að ekki sé búið að ákveða hvenær næsti formlegi fundur verður haldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert