Hver er stefnan í útlendingamálum?

AFP

Málefni innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda hafa á stundum verið tilefni talsverðrar umræðu á Íslandi og þá einkum í tengslum við aukinn fjölda hælisumsókna hér á landi á undanförnum árum. Flokkarnir sem bjóða fram í þingkosningunum á laugardaginn hafa nokkuð ólíkar áherslur gagnvart málaflokknum þó allir tali fyrir því að tekið sé vel á móti fólki á flótta frá stríðshrjáðum löndum. Nokkur samstaða er einnig um styttingu málsmeðferðartímans vegna hælisumsókna.

Hér að neðan er samantekt mbl.is á helstu áherslum flokkanna í málaflokknum:

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi mannúðarsjónarmiða og skilvirkni í málefnum hælisleitenda og að aðstoð við flóttamenn leiði til tækifæra til sjálfsbjargar. Taka þurfi vel á móti þeim sem leita hælis á Íslandi og eiga rétt á því að komast í skjól frá stríðsátökum og brýnni neyð og tryggja að kerfið hafi til þess burði. Margt sé ógert þó mikill árangur hafi náðst við styttingu málsmeðferðartíma. Flokkurinn vill einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) , meta menntun þess að verðleikum og tryggja að aðbúnaður á Íslandi geri landið eftirsóknarvert til framtíðar. Laða þurfi til landsins erlenda sérfræðinga sem miðla þekkingu sinni til starfsmanna fyrirtæja og styrkja stöðu þeirra.

Frétt mbl.is: Hvað skal gera í umhverfismálum?

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að Ísland eigi að taka á móti fleira flóttafólki og tryggja málaflokknum fjármagn og aðstöðu og ennfremur styrkja stöðu innflytjenda. Meðal annars með meiri íslenskukennslu þeim að kostnaðarlausu og ennfremur móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa íslensku sem annað mál. Flokkurinn telur brýnt að tryggja að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað í launum eða á nokkurn annan hátt. Ísland þurfi að axla sína ábyrgð á þeirri stöðu að sífellt fleiri séu á flótta í heiminum undan stríðsátökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Flokkurinn vill jafna aðstæður hælisleitenda og kvótaflóttamanna og tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga með fjármagni og mannafla í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Frétt mbl.is: Hvort á að hækka eða lækka skattana?

Samfylkingin

Samfylkingin vill að tekið verði á móti fleira flóttafólki en nú er gert. Flokkurinn rifjar upp að á síðasta ári hafi hann lagt til að tekið yrði á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum. Samfylkingin vill ennfremur að hælisleitendum sem komi á eigin vegum sé mætt af mannúð, tekið hratt á málum þeirra og sérstaklega hugað að þjónustu við börn. Þeir komist ennfremur fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám, verði virkir þátttakendur í samfélaginu og myndi tengsl við Íslendinga. Flokkurinn leggur áherslu á að unnið sé gegn útbreiðslu andúðar í garð fjölmenningar og uppbyggilega samræðu og fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögum.

Frétt mbl.is: Hvað vilja flokkarnir í sjávarútvegsmálum?

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn vill að vel sé tekið á móti flóttamönnum frá stríðshrjáðum löndum sem koma til Íslands og er hlynntur því að áfram sé tekið við kvótaflóttamönnum. Flokkurinn leggur hins vegar áherslu á að áhrifaríkasta leiðin til þess að hjálpa flóttafólki sé að hjálpa því í nágrenni heimalanda þeirra. Miðflokkurinn segir fjármagn nýtast margfalt betur í þessum efnum í Miðausturlöndum en í Evrópu. Markmiðið væri að hjálpa sem flestum og það væri best gert með því að styðja starf alþjóðastofnana á staðnum. Flokkurinn vill því auka fjárframlög til alþjóðastofnunum sem sinna stríðshrjáðu flóttafólki. Miðflokkurinn vill ennfremur stytta málsmeðferðartíma vegna hælisumsókna og að þær verði afgreiddar á tveimur sólarhringum líkt og í Noregi. Brottför vegna tilefnislausra umsókna verði hraðað fjárframlög aukin til Útlendingastofnunar og lögreglunnar.

Frétt mbl.is: Hvaða loforð fá aldraðir og öryrkjar?

Píratar

Píratar vilja auka ferðafrelsi eftir fremsta megni, sérstaklega á milli þjóðríkja. Bendir flokkurinn á að landamæri þjóða séu manngerð fyrirbæri sem komi oft í veg fyrir sjálfræði fólks og jafnræði á milli fólks af ólíkum uppruna. Píratar vilja samræma íslenska innflytjendastefnu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt gagnvart öllum erlendum ríkisborgurum, hvort sem þeir sæki um hæli eða dvöl, óháð uppruna þeirra. Stefnt sé að sem jöfnustum réttindum, aðgengi og tækifærum alls fólks sem býr á Íslandi. Ennfremur vill flokkurinn að leitað verði eftir aðkomu innflytjenda, flóttamanna, hælisleitenda og ríkisfangslausra að ákvarðanatökum. Þá sérstaklega í málefnum sem varða þá.

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn vill stytta þann tíma sem tekur að meðhöndla hælisumsóknir. Flokkurinn vill setja skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir hæli enda sé ómannúðlegt að láta umsækjendur dvelja hér á landi í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þurfi aukinn kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni í að sinna þeim sem líklega munu fá hæli.Framsóknarflokkurinn vill efla þróunarsamvinnu og auka framlög til neyðaraðstoðar til að aðstoða fólk sem er á flótta.

Frétt mbl.is: Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum?

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á að fólk utan EES eigi greiðari leið að vinnu og búsetu hér á landi. Bæta þurfi í lög ákvæðum sem heimili dvöl fólks í sjálfstæðum atvinnurekstri, vinnu fólks með starfstöðvar á internetinu og vinnu og dvöl fólks með sérhæfða þekkingu eða hæfni sem sóst er eftir. Flokkurinn vill bæta rétt útlendinga sem stunda hér nám til þess að setjast hér að þegar námi lýkur. Sporna þurfi við því að réttur sé brotinn á innflytjendum og erlendu vinnuafli á Íslandi með stóraukinni fræðslu. Íslendingar eins og aðrar þjóðir beri ríka ábyrgð gagnvart flóttafólki og hælisleitendum. Taka þurfi á málefnum þeirra af mannúð og samkennd. Stytta þarf málsmeðferðartíma hælisumsókna eins og kostur sé og auðvelda þeim sem hingað flytja að aðlagast nýjum heimkynnum.

Frétt mbl.is: Hyggjast leysa húsnæðisvandann

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins telur afar brýnt að innflytjendur sem setjist að hér á landi fái fulla aðstoð við að læra íslensku og stuðning til aðlögunar að þjóðfélaginu. Flokkurinn styður móttöku kvótaflóttafólks til landsins og leggur áherslu á góðan aðbúnað þess og aðlögun aðíslensku samfélagi. Umsóknir hælisleitenda verði afgreiddar með skilvirkum hætti innan 48 klukkustunda að norskri fyrirmynd.

Björt framtíð

Björt framtíð telur það vera skyldu Íslendinga að taka vel á móti þeim sem leiti griðlands og hælis utan heimalands síns vegna stríðsátaka. Flokkurinn vill horfa til þess mannauðs sem í flóttafólki býr en ekki eingöngu kostnaðar sem fylgi því að hjálpa fólki í neyð.  Móttaka flóttafólks þurfi að byggja á skynsemi, yfirvegun, mannúðarsjónarmiðum og skilvirkni svo tryggja megi að fólk fái þá aðstoð sem það þurfi á að halda til að koma undir sig fótunum í nýju samfélagi. Björt framtíð telur ómannúðlegt að beita Dyflinarreglugerðinni án þess að gefa kost á efnislegri meðferð máls. Flokkurinn hyggst beita sér fyrir því að beiting reglugerðarinnar hér á landi verði endurskoðuð.

Frétt mbl.is: Hvað á að gera við stjórnarskrána?

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin vill að Íslendingar búi sig undir að taka við miklum fjölda flóttamanna sem flýja stríð, hungursneyðir, ofsóknir og kúgun. Flokkurinn vill byggja upp þá innviði sem þurfi til að veita húsaskjól, heilbrigðisþjónustu, menntun og annað sem flóttafólk þarfnast og bjóða það svo velkomið í þeim mæli sem samfélagið þolir. Flokkurinn vill ekki að aðstoð við flóttafólk, frekar en aðra bágstadda, sé ölmusa og ekki að fólk sem notað sem ódýrt vinnuafl. Taka eigi á móti flóttafólki sem jafningjum. Veigamesta hjálpin sé þó barátta gegn ástæðum þess að fólk hrekst frá heimalöndum sínum; heimsvaldastefnu, farsóttum, kúgun og umhverfisspjöllum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert