Hvað á að gera við ferðaþjónustuna?

Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög og er orðin að einum af burðarásunum í íslensku efnahagslífi. Miklar umræður hafa átt sér stað á undanförnum árum um nauðsyn þess að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum. Einkum þar sem ágangur er mikill. Bæði til þess að bæta þjónustuna við ferðamenn og ekki síður standa vörð um viðkvæma náttúruna. Veruleg samstaða er í þeim efnum pólitískt en hins vegar hafa verið skiptari skoðanir um það með hvaða hætti eigi að fjármagna slíka uppbyggingu.

Hér fyrir neðan er samantekt mbl.is á helstu áherslum flokkanna sem í framboði eru fyrir þingkosningarnar á laugardaginn þegar kemur að ferðaþjónustunni:

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að hin öra þróun í ferðaþjónustunni megi ekki verða til þess að umhverfið glati sérkennum sínum og sérstöðu. Halda þurfi áfram að byggja upp innviði ferðaþjónustu í takt við vöxt hennar. Virða beri eignarrétt á landi og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Skatttekjur af greininni skapi svigrúm til fjárfestingar í innviðum svo sem í samgöngum, heilbrigðisþjónustu eða menntakerfinu. Ferðaþjónustan og ferðamenn eigi að greiða fyrir aðstöðu og þjónustu. Flokkurinn vill stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða um allt land svo laða megi ferðamenn að fleiri stöðum landsins. Ríkið bjóði út starfsemi nauðsynlegrar þjónustu á ferðamannastöðum í eigu þess.

Frétt mbl.is: Hvort á að hækka eða lækka skattana?

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill stórbæta aðstöðu ferðamanna og tryggja að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman. Ennfremur efla rannsóknir á sviði ferðamennsku og byggja ákvarðanir á bestu mögulegu þekkingu. Flokkurinn vill auka fjármagn til uppbyggingar innviða á flestum sviðum til að koma á móts við hraða og mikla aukningu ferðamanna til landsins. Ennfremur þurfi að stórauka menntun starfsfólks í greininni og koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Flokkurinn vill að lagt verði mat á áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru og umhverfi og möguleikar á að tengja menningu og ferðaþjónustu nýttir betur. Gistináttagjald verði hlutfallsmiðað og tekið upp komugjöld af farseðlum. Þá verði tryggt að sveitarfélög fái eðlilega hlutdeild í tekjum af ferðaþjónustu og unnið að því að auka möguleika fleiri svæða til að uppskera arð af ferðaþjónustu.

Samfylkingin

Samfylkingin leggur áherslu á að náttúra Íslands sé fjöregg ferðaþjónustunnar enda nefni flestir ferðamenn til landsins hana sem ástæðu heimsóknar sinnar. Uppbygging verndarsvæða og þjóðgarða, ekki síst á miðhálendinu, sé því þáttur í eflingu náttúruferðamennsku samfélaginu öllu og einstökum landshlutum til góða. Samfylkingin hyggst skýra umboð stjórnvalda til að grípa inn í ef hætta stafar af ágangi ferðamanna. Til að mynda með tímabundnum lokunum eða takmörkunum á umferð og fjölda ferðamanna á ákveðnum svæðum. Stjórnvöld verði að ákveða hvar eigi að byggja upp svæði, innviði og þjónustu og hvar ekki. Ennfremur vill flokkurinn að sett verði stefna í ferðamálum til næstu áratuga í samráði við hagsmunaaðila og bestu rannsóknir.

Frétt mbl.is: Hvaða loforð fá aldraðir og öryrkjar?

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn er andvígur því að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Einkum í ljósi þess að greinin býr við alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Þannig sé ferðaþjónustan gjarnan í lægra skattþrepi í Evrópu. Reynslan sýni að hærra verð þýði að ferðamenn kaupa færri nætur og kaupa ódýrari og minni þjónustu og fara minna út á land. Þetta kemur að mati flokksins harðar niður á ferðaþjónustuaðilum eftir því sem þeir eru lengra frá höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt sé að finna lendingu í þessum efnum í samráði við hagsmunaaðila og eyða óvissu um greinina til framtíðar.

Píratar

Píratar vilja gera langtímaáætlun um skipulag og uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Flokkurinn telur að í þeirri vinnu þurfi að fara fram virkt samtal við fólkið í nærsamfélaginu og að sjá þurfi til þess að tekjur af ferðamönnum fari í uppbyggingu um allt land.

Frétt mbl.is: Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum

Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn telur ótímabært að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og vill hverfa frá þeim áformum. Ferðaþjónustan sé gjaldeyrisskapandi atvinnugrein sem sé víðast hvar í neðra þrepi. Flokkurinn vill ennfremur að gistináttagjald renni óskipt til sveitarfélaga og sé ákveðið hlutfall af verði gistingar. Eðlilegt sé að hvert sveitarfélag ráðstafi því gistináttagjaldi sem þar fellur til til uppbyggingar á innviðum samfélagsins. Framsóknarflokkurinn vill taka upp hóflegt komugjald á ferðamenn og að tekjur af því verði nýttar til verndunar náttúrunnar og nauðsynlegrar nauðsynlegrar uppbyggingar innviða og til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði.

Viðreisn

Viðreisn vill nýta tækifæri sem fylgja ferðaþjónustunni og hámarka arðsemi af henni. Ferðaþjónustan byggist á því að nýta náttúruauðlindir landsins á sjálfbæran hátt. Flokkurinn telur að efla beri tekjulindir sveitarfélaga af ferðaþjónustu og auðvelda uppbygginu innviða. Ennfremur að tekið verði upp bílastæðagjald við ferðamannastaði sem verði bæði tekjustofn og tæki til aðgangsstýringar. Viðreisn vill treysta innviði til að mæta vaxandi ferðamannafjölda og horfir þar sérstaklega til nauðsynlegra verkefna í vegagerð og vegaviðhaldi, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, fjarskiptaþjónustu og löggæslu. Þá þurfi að tryggja öflugar flugsamgöngur innanlands til að mynda með betri tengingu við Keflavíkurflugvöll.

Frétt mbl.is: Hvað á að gera við stjórnarskrána?

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins vill hlúa að ferðaþjónustunni, sem hefur með skjótum hætti á undanförnum árum orðið burðarás í atvinnulífinu á Íslandi og helsta uppspretta gjaldeyristekna, á vaxtarskeiði hennar og greiða fyrir henni með öllum tiltækum ráðum. Flokkurinn styður það sjónarmið innan greinarinnar að stefnumörkun um málefni ferðaþjónustunnar miðist við að hún skili sem mestum arði í þjóðarbúið en að sem fæst fótspor séu skilin eftir í auðlindinni sem hún nýtir. Ferðaþjónustan sé þannig reist á forsendum sjálfbærni og og með fullu tilliti til þolmarka ferðamannastaða. Flokkur fólksins telur ótímabært að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna á komandi kjörtímabili enda þótt hann sé hlynntur jafnræði í skattlagningu atvinnugreina. Hins vegar vill flokkurinn taka komugjald af ferðamönnum til landsins sem nýtt verði til nauðsynlegrar uppbyggingu innviða.

Björt framtíð

Björt framtíð telur að ferðaþjónustan sé einstakt tækifæri fyrir Ísland, fyrir byggðir landsins og framtíðarafkomu þjóðarinnar. Flokkurinn leggur áherslu á að ferðaþjónustan megi áfram dafna í sátt og samlyndi við samfélagið, náttúru landsins og atvinnulífið. Til þess þurfi skýra framtíðarsýn um sjálfbærni í nýtingu náttúrunnar, uppbyggingu innviða og rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar.

Frétt mbl.is: Hyggjast leysa húsnæðisvandann

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin telur eðlilegt að ferðaþjónustuaðilar og ferðamenn greiði fyrir uppbyggingu opinberrar þjónustu við greinina. Það megi gera með ýmsum hætti. Til að mynda með hækkun virðisaukaskatts, upptöku flugvallargjalda og borgarskatta fyrir sveitarfélög. Flokkurinn varar við því að eftir því sem ferðamennskubólan verði stærri því harðari verði skellurinn fyrir efnahagslífið þegar hún springi sem hann telur að verði raunin. Fyrir vikið sé nauðsynlegt að draga úr fjölgun ferðamanna og um leið að draga úr mengun vegna flugumferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka