Eru stærri en fá færri þingmenn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson í baksýn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson í baksýn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lokatölur alþingiskosninga liggja nú fyrir og ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu tólf þingmönnum af 32. Framsóknarflokkurinn fær átta þingmenn og fleiri en bæði Samfylkingin og Miðflokkurinn þrátt fyrir að fá minna fylgi en hinir flokkarnir tveir. 

Kjörsóknin í ár er betri en í fyrra en þá greiddu 79,2% þeirra sem voru á kjörskrá atkvæði á landinu öllu. Alls greiddu 81,2% atkvæði nú.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn á Alþingi líkt og áður en fjórðungur kjósenda greiddi flokknum atkvæða. Alls fékk Sjálfstæðisflokkurinn 25,2% atkvæða og 16 menn kjörna á þing. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um 3,8 prósentastig á milli ára en árið 2016 fékk flokkurinn 29% og 21 þingmann.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Vinstrihreyfingin - grænt framboð er annar stærsti flokkurinn með 16,9% atkvæða og bætir við sig 1 prósentastigi og einum þingmanni. Árið 2016 fékk VG 15,9% og 10 þingmenn.

Samfylkingin bætir vel við sig á milli ára eftir mikið fylgishrun í fyrra. Samfylkingin er með 12,1% fylgi sem er 6,4 prósentastiga aukning á milli ára og bætir við sig fjórum þingmönnum. Árið 2016 fékk Samfylkingin 5,7% atkvæða og 3 þingmenn. Þetta er hins vegar minna fylgi heldur en árið 2013 en þá fékk Samfylkingin 12,9%.

Miðflokkurinn kemur nýr inn á Alþingi með 10,9% og fær sjö menn kjörna á þing. 

Framsóknarflokkurinn er með 10,7% og minnkar fylgi flokksins um 0,8 prósentastig frá árinu 2016 þegar Framsókn fékk 11,5% atkvæða og átta menn kjörna líkt og nú. Framsóknarflokkurinn fékk aftur á móti 24,4% atkvæða árið 2013. Í kjölfarið var mynduð ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem nú er leiðtogi Miðflokksins núna. 

Píratar fá 9,2% í ár og missa 5,3% af fylgi flokksins frá kosningunum árið 2016. Þá fékk flokkurinn 10,5% fylgi og tíu menn kjörna en nú verða þingmenn flokksins sex talsins. 

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flokkur fólksins fékk 6,9% atkvæða og eykur fylgið um 3,4 prósentastig á milli ára. Í fyrra fékk flokkurinn 3,5% atkvæða og engan þingmann en fékk fjóra núna.

Viðreisn fékk 6,7% atkvæða sem er 3,8 prósentastiga minnkun á  fylgi en í fyrra þegar flokkurinn fékk 10,5% atkvæða. Þingmönnum Viðreisnar fækkar úr sjö í fjóra.

Björt framtíð fékk aðeins 1,2% atkvæða nú í stað 7,2% fyrir ári og missir því alla fjóra þingmenn sína. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert