Úrslitin ljós: 39-24

Konum fækkar mjög á þingi á milli ára en alls …
Konum fækkar mjög á þingi á milli ára en alls náðu 24 konur kjöri í alþingiskosningunum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar öll atkvæði hafa verið talin er orðið ljóst að konum fækkar um sex á þingi. Alls voru 24 konur kjörnar á þing í gær í stað 30 í fyrra. Framsóknarflokkurinn og VG standa best að vígi þegar niðurstöður kosninganna eru skoðaðar með kynjagleraugum.

Aftur á móti fá Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins falleinkunn ef horft er á niðurstöðuna út frá jafnrétti kynjanna á Íslandi. Af 24 þingkonum eru þrír formenn stjórnmálaflokka sem munu eiga fulltrúa á þingi. Þær Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Inga Snæland, formaður Flokks fólksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er í hlutverki formanns Pírata og málsvari Pírata. 

Katrín Jakobsdóttir formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins verða fjórar konur og 12 karlar. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sitja áfram á þingi en Valgerður Gunnarsdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir detta út af þingi líkt og þeir Teitur Björn Einarsson og Vilhjálmur Bjarnason.

Hjá VG verða sex af 11 þingmönnum konur.  Þær eru auk formanns flokksins, Katrínar Jakobsdóttur, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir. Eini nýi þingmaðurinn hjá VG er Ólafur Þór Gunnarsson.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem gegninir hlutverki formanns Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem gegninir hlutverki formanns Pírata. mbl.is/Haraldur Jónasson

Samfylkingin er með fjóra karla og þrjár konur í nýjum þingflokki. Það er fyrrverandi formaður flokksins, Oddný G. Harðardóttir, og auk hennar koma tvær konur nýjar inn í þingflokkinn, þær Helga Vala Helgadóttir og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Tveir karlar koma nýir inn í þingflokkinn: Guðmundur Andri Thorsson og Ágúst Ólafur Ágústsson.

Miðflokkurinn er með eina konu á þingi, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, en aðrir í þingflokknum eru sex karlar. 

Framsóknarflokkurinn er með átta þingmenn en þar af eru fimm konur. Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Lilja Dögg Alfreðsdóttir. Tvær þeirra kvenna sem voru í þingflokki Framsóknar voru ekki í framboði í nýliðnum kosningum, þær Elsa Lára Arnardóttir og Eygló Harðardóttir. Þrír þingmenn flokksins sögðu sig úr flokknum og gengu til liðs við Miðflokkinn: Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Píratar eru með tvær þingkonur eftir kosningar, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Halldóru Mogensen. Aftur á móti eru þær Ásta Guðrún Helgadóttir og Birgitta Jónsdóttir hættar á þingi og Eva Pandora Baldursdóttir féll af þingi líkt og Gunnar Hrafn Jónsson og Einar Brynjólfsson. Fjórir karlar eru í þingflokki Pírata.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

Í þingflokki Flokks fólksins eru þrír karlar og ein kona en það er formaður flokksins, Inga Sæland. 

Hjá Viðreisn eru hlutföllin jöfn, tveir karlar og tvær konur. Þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, og Hanna Katrín Friðriksson eru áfram í þingflokki Viðreisnar en Jóna Sólveig Elínardóttir, Benedikt Jóhannesson og Pawel Bartozsek féllu af þingi.

Á síðasta kjörtímabili sátu 33 karlar eða 52,4% og 30 konur, 47,6% á Alþingi Íslands. Hafa aldrei fleiri konur verið kjörnar á þing. Staðan er önnur eftir kosningarnar núna þegar 24 konur voru kjörnar á þing eða 38,1% þingmanna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert