Forystulisti X-O staðfestur með 96% atkvæða

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Kosning á uppstillingu forystu Frjálslynda lýðræðisflokksins var nýlega samþykkt á aðalfundi flokksins sem lauk fyrr í dag. Fer Guðmundur Franklín Jónsson með sæti formanns og Glúmur Baldvinsson sæti varaformanns. Kosning uppstillinganefndar á framboðslistum og oddvitum var einnig staðfestur.

Guðmundur Franklín kveðst ánægður með niðurstöðuna og hve samhljóma hún var en 96% kjósenda samþykktu uppstillinguna á forystunni. Rúmlega 160 manns tóku þátt í kosningunni sem fór fram með stafrænum hætti, annars vegar með tölvupóstum flokksmanna og hins vegar á samfélagsmiðlinum Facebook.

Odd­vit­ar flokks­ins eru eft­ir­far­andi: 

  • Odd­viti í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður er Guðmund­ur Frank­lín Jóns­son hag­fræðing­ur og formaður flokks­ins.
  • Odd­viti í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður er Glúm­ur Bald­vins­son stjórn­mála­fræðing­ur.
  • Odd­viti í Noraust­ur­kjör­dæmi er Björg­vin Eg­ill Vídalín Arn­gríms­son, eldri borg­ari.
  • Odd­viti í Nor­vest­ur­kjör­dæmi er Sig­ur­laug Guðrún Inga Gísla­dótt­ir versl­un­ar­maður.
  • Odd­viti í Suður­kjör­dæmi er Magnús Ívar Guðbergs­son skip­stjóri.
  • Odd­viti í Suðvest­ur­kjör­dæmi er Haf­dís Elva Guðjóns­dótt­ir hús­móðir.

Störf án staðsetninga

Vekur Guðmundur Franklín athygli á gagnsemi veraldarvefsins í þessari kosningu enda sé eitt af stefnumálum flokksins að störf og önnur þjónusta fari fram með stafrænum hætti.

„Netið er gott í öllum samskiptum og þess vegna erum við alltaf að tala um störf án staðsetninga. Viljum við að ríkið gangi í forgöngu fyrir alla og segi að við ætlum að bjóða alla fundi á fjarfundarbúnaði. Það myndi minnka kolefnissporið gífurlega. Við viljum að fólk geti búið út á landi og unnið í Reykjavík án þess að keyra á milli. Þetta á líka við í sambandi við nám. Fólk á að geta búið út á landi og verið í námi, og sinnt fjölskyldunni sinni á sama tíma. Þetta sparar mengun og pening.“

Segir Guðmundur Franklín tilvalið tækifæri fyrir landsmenn að hefja þessar aðgerðir, sér í lagi vegna þeirrar reynslu sem við höfum sankað að okkur yfir heimsfaraldurinn.

„Við erum komin með eitt og hálft ár í reynslu af því að veita almenna þjónustu með stafrænum hætti. Það var ekki minna þjónustustig í Covid. Við teljum þetta einstakt tækifæri fyrir þessa þjóð. Í staðinn fyrir að tala um þéttingu byggðar getum við hugsað um byggðir landsins.“

Vilja upplýsa um spillingu í hinu opinbera

Meðal annarra stefnumála flokksins er baráttan gegn spillingu.

„Við ætlum að berjast með hæl og hnakka gegn allri spillingu, við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru. Við getum ekki verið að fela sannleikann og staðreyndir fyrir fólkinu í landinu. Ef við verðum svo heppnir að komast á þing þá teljum við okkur komast í gott sæti til að geta upplýst um spillingu í hinu opinbera,“ segir Guðmundur Franklín að endingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert