Andlát Jobs stórlega ýkt

Steve Jobs er sprellifandi.
Steve Jobs er sprellifandi. Reuters

Minningagrein um sprelllifandi Steve Jobs, stofnanda Apple, var fyrir slysni birt hjá hinni virtu viðskiptafréttastofu Bloombergs. Fréttin sem var merkt „Geymið birtingu - ekki nota“ var fyrir mistök send til þúsunda notenda fréttaþjónustunnar í fyrirtækjageiranum.

Minningargreinin sem átti að geymast í safni, birtist „andartak“ eftir kerfisbundna uppfærslu blaðamanns og var „eytt samstundis“, sagði í yfirlýsingu frá Bloomberg.

Jobs var greindur með krabbamein í brisi árið 2003 en ekkert hefur komið fram um að fréttastofan hafi haft einhverjar nýrri upplýsingar um heilsufar Jobs. Uppfærsla á fyrirframskrifuðum minningargreinum um þjóðþekkta einstaklinga eru alþekkt vinnubrögð hjá erlendum fréttastofum og blöðum.

Minningargreinin sem slúðurbloggsíða í Bandaríkjunum hafði komist yfir, var hins vegar með eyðu þar sem átti að koma fram aldur Jobs og dánarorsök og áttu upplýsingarnar að færast inn þegar þær lægju fyrir.

Upphafsmálsgrein minningargreinarinnar lýsti Jobs sem manninum „ sem gerði einkatölvuna eins einfalda í notkun og síma, breytti því hvernig teiknimyndir eru unnar, sannfærði neytendur um að stilla inn á stafræna tónlist og endurhannaði farsímann.“

2500 orða greinin geymdi m.a. lofsyrði keppinautarins, Bill Gates, hjá Microsoft, frásögn af því hvernig hann hætti í skóla og varð milljarðamæringur í tæknigeiranum ásamt lista yfir eftirlifandi aðstandendur.

Jobs hefur verið ófús að ræða heilsufar sitt opinberlega en hefur nýverið borið til baka fréttir um að krabbameinið hafi tekið sig upp aftur.

Hvað sem því líður getur Steve Jobs gert orð Mark Twain að sínum:

„ Fréttir af andláti mínu eru stórlega ýktar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert