Stefnir á Mars innan tíu ára

Elon Musk á ráðstefnu í Hong Kong í vikunni.
Elon Musk á ráðstefnu í Hong Kong í vikunni. AFP

Elon Musk, eigandi SpaceX, telur að fyrirtækið muni senda menn til Mars fyrir árið 2025, að minnsta kosti fimm árum áður en NASA áformar slíka heimsókn. Sjálfur segist hann vilja fara út í geiminn á næstu fimm árum og að hann sé byrjaður að undirbúa sig fyrir geimförina.

SpaceX sér meðal annars um birgðaflutninga fyrir NASA til Alþjóðlegu geimstöðinni og er með samning um að hanna og framleiða mannaða geimferju. Metnaður Musk, sem ræddi málið á nýsköpunarráðstefnu í Hong Kong í vikunni, nær hins vegar greinilega mun lengra.

Þar lagði hann áherslu á hversu mikilvægt það væri fyrir menn að komast til rauðu reikistjörnunnar og koma þar á fót sjálfbærri borg, bæði til að verja mannkynið fyrir aldauða og til að veita fólki innblástur.

„Þetta yrði ótrúlegt ævintýri. Það væri spennandi og veitti innblástur og það verða að vera hlutir sem gera fólk spennt og veitir því innblástur,“ sagði Musk.

Geimferðafyrirtækið hans mun svipta hulunni af næstu kynslóð geimferja þess á alþjóðlegri geimflugsráðstefnu í Guadalajara í Mexíkó í september.

Frumkvöðullinn ætlar sér að taka þátt í geimferðum sjálfum því hann segist þegar byrjaður á æfingum í þyngdarleysi í flugvél til að búa sig undir að fara út í geim á næstu fimm árum. Hann segist þó ekki búinn að gera mikið meira til að þjálfa sig sem geimfara.

„Ég held ekki að það sé svo erfitt, í raun og veru. Það er ekki svo erfitt að fljóta um,“ sagði Musk.

Frétt NBC af áætlunum Elons Musk um Marsferðir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert