Kasta breskum vísindamönnum fyrir borð vegna Brexit

Frá Cambridge-háskóla.
Frá Cambridge-háskóla. AFP

Þrýst hefur verið á leiðandi háskóla á Bretlandi að hætta þátttöku í evrópskum samstarfsverkefnum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrsögn landsins úr Evrópusambandinu. Þátttaka breskra vísindamanna í þeim er talin geta ógnað fjármögnun verkefnanna.

Könnun sem The Guardian gerði á meðal svonefndra Russel Group-háskóla á Bretlandi leiddi í ljós að bakslag átti sér stað gegn breskum vísindamönnum nánast um leið og niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni lá fyrir í júní. Miklar efasemdir hafa verið uppi um hvort breskar stofnanir geti fengið styrki frá ESB í framtíðinni. Á meðal háskólanna 24 í Russel Group eru Oxford, Cambridge, Edinborgarháskóli og fleiri af þekktustu háskólum Bretlands.

Blaðið nefnir eitt dæmi þar sem verkefnisstjóri hjá ESB mælti með því við yfirmann rannsóknar að hann kastaði öllum breskum þátttakendum fyrir borð í samstarfshópi vegna þess að ekki væri hægt að tryggja hlutdeild Breta í fjármögnuninni. 

Rannsóknir á sviði náttúruvísinda, verkfræði og félagsvísinda hafa orðið fyrir áhrifum vegna fyrirhugaðrar úrsagnar Bretlands úr ESB. Breskir vísindamenn eru einnig sagðir tregari til að sækja um styrki til Evrópu vegna óvissunnar um framhaldið og vegna þess að þeir vilja ekki vera veiki hlekkurinn í samstarfi.

Vísindamenn á Bretlandi hafa fengið um einn milljarð punda á ári í styrki frá Evrópusambandinu í ýmis verkefni.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert