Misstu andann þegar myndirnar komu

Suðurpóll Júpíters á mynd Juno. Menn höfðu aldrei séð pólinn …
Suðurpóll Júpíters á mynd Juno. Menn höfðu aldrei séð pólinn með þessum hætti áður. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS

Stjórnendur bandaríska geimfarins Juno misstu andann þegar fyrstu myndir þess af Júpíter skiluðu sér til jarðar í síðasta mánuði, að sögn Candice Hansen sem er yfir myndavél Juno. Hansen hefur verið í eldlínu könnunar sólkerfisins í tæpa fjóra áratugi og segir samfélag áhugamanna leika lykilhlutverk í vinnslu myndanna frá Juno.

Hansen, sem starfar hjá Reikistjörnuvísindastofnuninni í Arizona í Bandaríkjunum, hefur nóg á sinni könnu, jafnvel of mikið að eigin sögn. Hún greinir myndir sem HiRISE-myndavélin í Mars Reconnaissance Orbiter tekur af Mars, tekur þátt í Cassini-leiðangrinum við Satúrnus og undirbýr nýjan leiðangur til ístunglsins Evrópu í framtíðinni. Ekki er nóg með það heldur lét hún plata sig til að vera yfir JunoCam, myndavélinni í geimfarinu Juno, sem kom til Júpíters í júlí.

Frétt Mbl.is: Glæsilegar myndir af Júpíter

Fyrstu nærmyndirnar af Júpíter sem JunoCam tók bárust til jarðar í byrjun september. Þeirra á meðal voru þær fyrstu sem menn hafa fengið af pólum gasrisans.

„Mér létti svo mikið. Mér létti svo að myndavélin væri í lagi. Við vorum að horfa á myndirnar þegar geimfarið var að nálgast Júpíter og við sögðum: „Ó já, þetta verður gott!“ Þegar við fengum svo myndirnar þar sem við horfðum niður á pólana í fyrsta skipti þá misstum við andann,“ segir Hansen í viðtali við Mbl.is en hún var stödd á Íslandi í tengslum við ráðstefnu um heimskautaísinn á Mars í Háskóla Íslands í síðasta mánuði.

Reiða sig á þátttöku almennings

Tilgangur JunoCam er fyrst og fremst að fanga athygli almennings og virkja hann til þátttöku í leiðangrinum þó að Hansen segi að myndavélin hafi vissulega einhver vísindaleg markmið líka. Fyrir utan að laða fólk að með fallegum myndum af Júpíter geta áhugastjörnufræðingar og almenningur tekið beinan þátt í leiðangrinum.

Hansen segir að leiðangurinn virki áhugastjörnufræðinga sem leggja til myndir af Júpíter sem þeir taka með sjónaukum sínum á jörðu niðri. Úr þeim myndum er búið til kort sem er uppfært reglulega. Áhugamennirnir geta síðan tilnefnt áhugaverð kennileiti sem þeir vilja að verði mynduð með JunoCam og fá jafnvel að nefna þau. Almenningi gefst síðan kostur á að kjósa af hverju geimfarið tekur myndir.

Mikilvægasta framlag áhugamannanna er hins vegar í myndvinnslunni, að sögn Hansen.

„Vegna þess hvernig gögnin koma til jarðar þá verður að vinna þau. Ég er ekki með teymi í það verk en það er heilt samfélag myndvinnslufólks sem hefur tólin og elskar að gera þetta. Við ætlum að setja öll gögnin okkar út, þau góðu, slæmu og ljótu, á vefsíðuna okkar og segja þeim að kýla á það,“ segir Hansen.

Mynd Voyager 1 af stóra rauða blettinum sem Björn Jónsson …
Mynd Voyager 1 af stóra rauða blettinum sem Björn Jónsson vann frekar. Hansen lofar störf myndvinnsluáhugamanna eins og hans.

Þetta er strax byrjað að bera ávöxt og segir Hansen að áhugamennirnir hafi þegar sent inn myndir frá JunoCam þar sem til dæmis er búið er að skerpa á birtuskilum og vinna með litina í myndunum. Sumir hafa jafnvel sent inn teiknimyndir sem þeir hafa unnið úr JunoCam-myndunum.

„Við erum að reyna að ákveða hvað við eigum að gera við þær. Það er ekki samþykkt af NASA að við höfum fundið eldfjöll á Júpíter!“ segir Hansen og hlær.

Frétt Mbl.is: Íslendingur kortlagði Evrópu

Á meðal þeirra sem hafa unnið myndir af Júpíter í gegnum tíðina er Íslendingurinn Björn Jónsson. Hann hefur meðal annars unnið líklega skörpustu myndina af Stóra rauða bletti Júpíters og nokkrum tunglum hans úr myndum Voyager-geimfaranna. Hansen segist hafa séð myndir Björns og þær séu sérstaklega góðar.

Mútaði kollegunum með smákökum

Hansen er enginn nýgræðingur í könnun sólkerfisins. Þegar hún var 24 ára gömul og nýskriðin úr grunnnámi í eðlisfræði í háskóla fékk hún vinnu við Voyager-leiðangrana árið 1977. Voyager-geimförin tvö mörkuðu tímamót í könnun manna á sólkerfinu en þau færðu okkur fyrstu myndirnar af reikistjörnunum í ytra sólkerfinu.

„Þetta var fyrsta starfið mitt eftir háskóla. Að vera þarna með öllum risum reikistjörnuvísinda sem voru þarna í upphafi, að vera hluti af þessu, að sjá þessar ótrúlegu myndir sem bárust, það var sannarlega ótrúlegt. Við ræddum fyrirfram um hvað við bjuggumst við að sjá. Myndirnar voru á endanum svo langt fram úr væntingum okkar að það gerði mann raunverulega auðmjúkan. Maður telur sig skilja eitthvað og að maður geti spáð fyrir um eitthvað en þú getur gleymt því!“ segir hún.

Mynd Voyager af Satúrnusi.
Mynd Voyager af Satúrnusi. ljósmynd/NASA

Ytra sólkerfið reyndist mun fjölbreyttari og spennandi staður en vísindamönnunum hafði órað fyrir. Hringir Satúrnusar voru til dæmis margbrotnari en menn höfðu séð fyrir sér og sérstaklega reyndust tungl gasrisanna mun áhugaverðari en gert hafði verið ráð fyrir. 

Í ljósi upplýsinganna sem Voyager 1 sendi til jarðar ákváðu stjórnendur leiðangursins að breyta áætlun Voyager 2 verulega til að kanna frekar þessa nýju og spennandi heima. Það féll í skaut Hansen að breyta áætlunum Voyager 2.

„Mitt starf var að framkvæma þetta allt og ég hafði aðeins þrjá mánuði til þess. Það var mikil áskorun. Þegar ég var ekki að vinna á JPL [Jet Propulsion Lab NASA þaðan sem leiðangrinum var stjórnað] við að breyta skipunum var ég að baka smákökur til að múta kollegum mínum til að fá þá til að gera allar þessar breytingar fyrir okkur. Það komst á það stig að þegar þeir sáu mig koma með smákökukrús þá sögðu þeir „Æ nei, hvað vill hún núna?" rifjar Hansen upp og hlær.

Stór hluti lofthjúpsins frýs yfir veturinn

Ær og kýr Hansen í reikistjörnufræðunum eru framandi virkni sem á sér stað á Mars og ístunglunum Enkeladusi og Trítoni, tunglum Satúrnusar og Neptúnusar. Íslendingar þekkja líklega jarðvirkni betur en flestir en sú sem á sér stað á þessum nágrönnum okkar í sólkerfinu er hins vegar bæði kunnugleg og framandi á sama tíma.

Hansen lýsir því sem persónulegri ástríðu sinni að fylgjast með þurrís, árstíðarskiptum og að mynda vorið á Mars með HiRISE-myndavélinni. Hún viðurkennir hins vegar kinnroðalaust að þær rannsóknir séu ekki hluti af stóru myndinni um fljótandi vatn eða líf á rauðu reikistjörnunni heldur frekar persónulegt áhugamál hennar. Því þrýsti hún ekki á að taka myndir fyrir sig því þær séu mikilvægar „heldur því að Candy er svo hrifin af þeim,“ segir hún kímin.

Vefsíða HiRise-myndavélarinnar á íslensku

Það sem heillar Hansen sérstaklega á Mars er samspil lofthjúpsins og yfirborðsins á norðurpólnum. Lofthjúpur Mars er að nær öllu leyti úr koltvísýringi. Þegar veturinn gengur í garð frýs 25-30% af lofthjúpnum og myndar þurríslag á pólsvæðunum.

„Ég er algerlega hugfangin af þessum árstíðarbundnu breytingum. Mestur hluti lofthjúpsins [sem frýs] þéttist beint á yfirborðið en nú höfum við gögn sem sýnir að hluti hans fellur sem snjór. Þannig að það eru snjóbylir á Mars nema þeir eru úr þurrís!“ lýsir hún full áhuga.

Læra um jörðina af því að rannsaka framandi heima

Það sem meira þá hefur HiRSE-myndavélin fundið merki um sérstæða „hveravirkni“ sem á sér stað í þurrísnum. Koltvísýringsís er þeirri náttúru gæddur að hann fer beint úr föstu ástandi í gas með hækkandi hitastigi. Þurrísinn er ennfremur hálfgegnsær þannig að hann hleypir sólarljósi í gegnum sig og hitar upp jarðveginn fyrir neðan ísinn. Þannig byggist upp þrýstingur gass sem brýtur sér svo leið í gegnum ísinn í strókum sem geta náð allt að hundrað metra hæð en Hansen segir að teygi sig yfirleitt tugi metra upp í loftið.

Frétt Mbl.is: HiRise á hálendi Íslands

Með þessum hætti þyrlast hluti jarðvegarins upp og mótar nokkurs konar rásir á yfirborðinu sem vísindamenn hafa kallað köngulær. Hansen segir að þetta sé tegund af veðrun sem á sér ekki stað á jörðinni.

„Þetta er mjög svipað hveravirkni en er ekki það sama vegna þess hvaðan orkan kemur. Í hverum kemur orkan úr jörðinni. Á Mars eru þessir hverir knúnir sólarorku. Orka sólarinnar hitar jörðina, þú færð gas undir þrýstingi, þegar það gýs er það eins og hver,“ segir Hansen.

Þurrís fyllir farvegi sem hann hefur sorfið í yfirborð Mars. …
Þurrís fyllir farvegi sem hann hefur sorfið í yfirborð Mars. Þegar ísinn gufar upp að vori skilur hann eftir sig sérstæðar myndanir rása í jarðveginum sem vísindamenn kalla óformlega köngulær. ljósmynd/NASA/JPL/University of Arizona

Eitt það mikilvægasta við könnun mannsins á geimnum að mati Hansen er að hún víkkar sjóndeildarhring okkar bókstaflega út.

„Við sjáum hluti sem við upplifum ekki á jörðinni. Þetta er sama eðlisfræðin þarna úti en núna erum við að vinna með annað hitastig, önnur efni, þannig að hlutirnir þróast öðruvísi en þeir gera hérna á jörðinni. Á áhugaverðan hátt þá er eins og því meira sem við lærum um það sem er utan jarðarinnar, því meira lærum við um reikistjörnuna okkar," segir hún.

Eygja möguleikann um líf undir ísnum

Ólíkt „hverunum“ á Mars eru strókarnir sem menn hafa séð á tunglunum Enkeladusi og Trítoni afurð raunverulegrar jarðvirkni. Þeir eru önnur helst ástríð Hansen í sólkerfinu okkar. Voyager-geimförin misstu naumlega af því að uppgötva strókana á tungli Satúrnusar en á Trítoni komu strókarnir vísindamönnum í opna skjöldu. Þeir höfðu talið að jarðvikni væri lítil sem engin í fimbulkulda ytra sólkerfisins.

„Við áttum aldrei von á að sjá neins konar jarðvirkni þegar komið var út í ytra sólkerfið með Voyager fjær sólinni,“ segir Hansen en Cassini-geimfarið sýndi síðar fram á að sams konar strókar stigu upp frá yfirborði Enkeladusar.

Strókur stígur upp frá yfirborði Enceladusar þegar Cassini flaug rétt …
Strókur stígur upp frá yfirborði Enceladusar þegar Cassini flaug rétt fram hjá yfirborðinu. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Það sem menn komust að raun um var að ístunglin lumuðu sum á hafi fljótandi vatns undir misþykkri ísskorpu. Við Júpíter og Satúrnus eru það vera gríðarsterkir flóðkraftar reikistjarnanna sem valda núningi og hita inni í tunglunum. Á jörðinni veldur jarðhitinn eldgosum þar sem bráðið berg flæðir upp á yfirborðið. Á tunglum eins og Enkeladusi er það hins vegar fljótandi vatn sem gýs upp úr sprungum í ísskorpunni. 

Fljótandi vatn er talin helsta forsenda lífs og því vekur tilvist þess undir yfirborði ístungla hugmyndir um að líf gæti verið til staðar þar. Galíleótunglið Evrópa hefur oft verið nefnt í þessu samhengi og hefur NASA í hyggju að rannsaka það frekar á næstu árum.

„Ef það er líf í þessu neðanjarðarhafi getum við komist að því hvort það er þar? Getum við nálgast það? kannski eru veikleikar í skorpunni þar sem strókar gætu komið upp sem við höfum ekki komið auga á ennþá,“ segir Hansen.

Ístunglið Evrópa þar sem talið er að mikið haf leynist …
Ístunglið Evrópa þar sem talið er að mikið haf leynist undir skorpunni. NASA

Reikistjörnufræðisamfélagið segir hún þó ennþá tiltölulega fullt efasemdum um tilvist lífs í neðanjarðarhöfum í ytra sólkerfinu.

„Ég var hins vegar á fundi með haffræðingum sem hafa unnið með lífið í hyldýpi hafsins á jörðinni og þeir segja: „Þið eigið eftir að finna líf. Það er þarna. Við finnum það út um allt“,“ segir Hansen og skellir upp úr.

Uppgötvanir á jörðinni grafa undan efasemdum reikistjörnufræðinganna og segir Hansen hugmyndir þeirra hafa breyst mikið á síðustu tveimur áratugum. Líf hafi fundist á jörðinni við öfgakenndar aðstæður þar sem enginn hefði trúað að líf gæti þrifist.

„Ef við fyndum líf annars staðar þá væri það ótrúlegt. Að sjá eitthvað sem er allt öðruvísi uppbyggt sem er ekki á okkar þróunartré væri stórbrotið. Þar er margt að læra á leiðinni. Að skilja þessi höf, hvernig þau hafa áhrif á jarðfræði yfirborðsins, hvernig straumarnir virka í höfum utan jarðarinnar. Það er margt að læra. Þetta kemur aftur að heildarskilningi okkar á stöðum sem eru ekki eins og jörðin en þeir kenna okkur um jörðina,“ segir Hansen.

Candice Hansen, reikistjörnufræðingur hjá Reikistjörnufræðistofnunina í Arizona.
Candice Hansen, reikistjörnufræðingur hjá Reikistjörnufræðistofnunina í Arizona.

Lítur á klukkuna og dagurinn er búinn

Vinnudagur Hansen líður hratt enda fæst hún við að ráða úr leyndardómum sólkerfisins okkar dags daglega. Hún segist enn vera eins ástríðufull fyrir starfinu og þegar hún byrjaði fyrir tæpum fjórum áratugum.

„Ég sest við tölvuna og næst þegar ég lít á klukkuna er dagurinn búinn. Ég vildi óska að allir hefðu svona góða vinnu, alveg sama hver hún er,“ segir Hansen.

Myndasafn Juno-leiðangursins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert