Afrita loftslagsgögn af ótta við Trump

Maður með grímu af andliti Donalds Trump mótmælir stefnu verðandi …
Maður með grímu af andliti Donalds Trump mótmælir stefnu verðandi forsetans í loftslagsmálum. AFP

Svo áhyggjufullir eru loftslagsvísindamenn yfir komandi ríkisstjórn Donalds Trump að þeir eru byrjaðir að afrita mikilvæg gögn sem eru geymd á opinberum vefsíðum af ótta við að verðandi valdhafar krukki í þeim eða eyði jafnvel. 

Trump hefur lýst því yfir að hann telji loftslagsbreytingar vera kínverskt „gabb“ og hefur heitið því að afnema lög og reglur sem Barack Obama forseti setti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun.

Eftir að hann sigraði í forsetakosningunum hefur hann skipað forherta afneitara loftslagsvandans í ýmis embætti, þar á meðal Scott Pruitt í embætti yfirmanns umhverfisstofnunarinnar. Pruitt stendur í málaferlum gegn stofnuninni til að fá reglum sem hún setti til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda hnekkt.

Teymið sem vinnur að valdatöku Trump hefur einnig krafið orkumálaráðuneytið um nöfn starfsmanna sem hafa tekið þátt í alþjóðlegum fundum um loftslagsbreytingar eða unnið að vísindalegum grundvelli loftslagsreglna Obama. Ráðgjafar hans hafa talað um að NASA hætti loftslagsrannsóknum sínum og einbeiti sér að geimkönnun.

Frétt Mbl.is: Vilja nöfn þeirra sem unnu að loftslagsaðgerðum

Jafnvel þó að ekkert hafi komið fram um að Trump og félagar muni beinlínis fikta í eða eyða opinberum loftslagsgögnum eru sumir vísindamenn nógu óttaslegnir yfir afstöðu komandi ríkisstjórnar til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Scott Pruitt, sem Trump hefur skipað sem yfirmann umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, …
Scott Pruitt, sem Trump hefur skipað sem yfirmann umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, stendur í málaferlum gegn henni til að stöðva loftslagsreglur. AFP

Gætu reynt að stöðva gagnasöfnunina

Í Háskólanum í Toronto í Kanada búa vísindamenn sig þannig undir að byrja að afrita ómetanleg opinber gögn og í Háskólanum í Pennsylvaníu ræða þeir um hvernig þeir geta halað niður eins miklu af gögnum alríkisyfirvalda og mögulegt er á næstu vikum. Annars staðar ræða vísindamenn og gagnabankasérfræðingar um að taka saman vefsíðu þar sem vísindalegar upplýsingar verða aðgengilegar öllum.

 „Það sem mér virtist svolítil vænisýki áður virðist skyndilega mögulega raunhæft eða þú myndir að minnsta kosti vilja baktryggja þig fyrir,“ segir Nick Santos, umhverfisvísindamaður við Kaliforníuháskóla, en hann byrjaði að afrita alríkisgögn yfir á óháðan netþjón um helgina.

„Það getur bara verið gott að gera þetta. Vonandi hrófla þeir ekki við neinu en ef svo færi þá erum við búin undir það,“ segir Santos við Washington Post.

Frétt Mbl.is: Loftslagsafneitari yfir umhverfismálin

Eric Holthaus, veðurfræðingur sem hafði frumkvæði að því að loftslagsvísindamenn byrjuðu að taka saman hvaða opinber gagnasöfn væru bráðnauðsynleg, segir að þessar aðgerðir séu að mestu leyti í varúðarskyni.

„Ég held ekki í raun að þetta muni gerast en ég held að það gæti gerst. Öll þessi gagnasöfn eru ómetanleg í þeim skilningi ef að það myndast gat í þeim þá dregur verulega úr notagildi þeirra,“ segir hann.

Afar ólíklegt er að ný ríkisstjórn myndi reyna að eyða gögnum að mati Andrew Dessler, prófessors í lofthjúpsvísindum við A&M-háskólann í Texas, því það gæti aflað henni mikilla óvinsælda. Mun líklegra telur hann að loftslagsafneitarar í ríkisstjórn Trump muni reyna að stöðva gagnasöfnun til að draga úr virði gagnanna.

„Það er lykilatriði til að skilja langtímaleitni að hafa samfelld gögn. Leitni er það sem loftslagsbreytingar snúast um, að skilja þessa langtímaleitni. Hugsaðu um hversu mikið betra þeir sem vilja ekki gera neitt vegna loftslagsbreytinga hefðu það af öll gögnin um langtímaleitni hitastigs væru ekki til. Ef þú getur losnað við gögnin þá ertu í mun sterkari stöðu til að færa rök fyrir því að við ættum ekki að gera neitt í loftslagsbreytingum,“ segir Dessler.

Frétt Mbl.is: Rista jarðrannsóknaáætlun NASA á hol

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert