Atkvæði greidd 20. febrúar?

Stefnt er að því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram 20. febrúar.
Stefnt er að því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram 20. febrúar. mbl.is

Í drögum að frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðslan fari fram 20. febrúar. Alþingi mun koma saman til að ræða um frumvarpið á föstudaginn.

Frumvarpið fjallar eingöngu um atkvæðagreiðsluna um Icesave-lögin. Frumvarpið er því tiltölulega einfalt að gerð. Ekki er gert ráð fyrir að krafist verði lágmarksþátttöku til að atkvæðagreiðslan sé gild.

Samkvæmt drögunum verður eftirfarandi spurning á kjörseðlinum sem kjósendur fá í hendur: „Eiga lög um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum að greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar, að halda gildi sínu?“

Birgitta Jónsdóttir, formaður Hreyfingarinnar, sagðist telja þetta vera óþarflega flókna spurningu og æskilegt væri að reyna að einfalda orðalag hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina