25. október 1997 | Menningarblað/Lesbók | 2022 orð

TÍÐARANDI Í ALDARLOK, 8. HLUTI

PÓSTMÓDERNISMI: RÖKLEYSISHYGGJA Í MENNTAMÁLUM

EFTIR KRISTJÁN KRISTJÁNSSON

Póstmódernistar (pm-istar) hafa nýverið svifið fram á hvelfinguna eins og vígahnettir í umræðum um menntamál, jafnt og á öðrum mannlífssviðum. Tvennt veldur því hins vegar að torsóttara er að gera grein fyrir hugmyndum þeirra á þessu sviði en öðrum,
TÍÐARANDI Í ALDARLOK, 8. HLUTI

PÓSTMÓDERNISMI:

RÖKLEYSISHYGGJA

Í MENNTAMÁLUM

EFTIR KRISTJÁN KRISTJÁNSSON

Nýskólastefnan kann að vera rómantísk og óraunsæ en nýskólasinnar eiga sér þó draum ­ um sjálfstæðan einstakling sem uppgötvar heiminn í kringum sig upp á eigin spýtur. Hjá pm-istum blasir á hinn bóginn ekkert við nema sverta og vonleysi afstæðishyggjunnar.

Póstmódernistar (pm-istar) hafa nýverið svifið fram á hvelfinguna eins og vígahnettir í umræðum um menntamál, jafnt og á öðrum mannlífssviðum. Tvennt veldur því hins vegar að torsóttara er að gera grein fyrir hugmyndum þeirra á þessu sviði en öðrum, þótt "heimspekin" sem að baki býr sé hin sama. Annað er að málflutningur pm-ista gengur sumpart þvert á viðteknar deilur svokallaðra hefðar - og nýskólasinna og hitt að pm-isminn skarast hér við ýmsar hugmyndir sem verið hafa á kreiki í menntamálum en eiga sér annan uppruna, meðal annars fjölhyggju/fjölmenningarstefnu og alræmda pólitíska rétthugsun . Ekki er hlaupið að því að greiða úr þessari flækju í stuttu máli en þó skal nokkurs í leitað. Dæmigerð áróðursgrein fyrir pm-isma í menntamálum er skrifuð af uppgjafa marxista og felur að sumu leyti í sér persónulegt uppgjör hans við eigin fortíð. Bent er á að rökmiðjuhyggja og húmanismi séu lykilhugtökin í menntahefð Vesturlanda. "Skynsemisgáfan" svokallaða, er flestir virðast sammála um að rækta beri í skólum, sé þannig söguleg menningarsmíð: ein flís af ríkjandi skilningi á manninum, frá upplýsingaröld, sem heilsteyptri hugsandi veru með frjálsan vilja. Marxistar hafi illu heilli ginið við þessari hugmynd á tíma módernismans, eins og aðrir, og ekki síður systurhugmynd hennar, um firringu einstaklingsins frá raunverulegum löngunum og hagsmunum sínum. Þörf hafi verið talin á "besser-wisser"-pólitík sjáendanna til að leiða hina blindu og ­ á endanum ­ til að veita þeim sjónina aftur. Kennarar hafi svo átt að gegna framvarðahlutverki í skólum með því að opna augu nemenda sinna fyrir stéttakúguninni: fyrst auðvitað hvítu karlnemanna er síðan gætu borið neistann til hinna! En þarna óðu marxistarnir krap, bæði með því að samþykkja húmaníska mannskilninginn (og þar með dýrkunina á vestrænum vísindum) og ekki síður með því að "aðra" (lítillækka) konur og hvers kyns minnihlutahópa. "Upplýstu" marxísku kennararnir skildu ekki að þeir sjálfir voru blindaðir af fordómum - fordómum rökmiðjuhyggjunnar, fordómum karlrembu og hommahaturs ­ og að öll þekking er og verður þrungin valdi, samanber Foucault. Í staðinn þurfum við, að sögn pm-ista, nýja tegund kennara sem ekki stefna að "frelsun" nemenda sinna frá "firringu" heldur að vekja þá til vitundar um að ekkert endanlegt frelsi sé til: að allur sammannlegur skilningur sé blekking, að vestræn vísindi séu ekkert "réttari" en heimssýn indíána og að höfuðmarkmið náms sé að læra að greina hver beiti hvern valdi á hverju orðræðusviði. Með öðrum orðum: Við þurfum að innleiða pm-íska rökleysishyggju í skólum! Meðan við drögum andann eftir þessa ádrepu er rétt að rifja ögn upp deilur hefðar - og nýskólasinna um réttar kennsluaðferðir. Nýskólasinnar, sem Helga Sigurjónsdóttir hefur ófrægt hvað mest hér á landi á undanförnum árum, meðal annars á síðum Lesbókar , boðuðu að nemendur ættu að læra það sem þeir vildu þegar þeir vildu. Ekki ætti að troða þekkingunni í haus barna eins og snælda væri sett í rokk heldur skyldu þau uppgötva staðreyndirnar sjálf. Einstefnumiðlun kennara, utanbókarlærdómur og minnisstagl urðu bannorð. Hefðarsinnar ásökuðu nýskólasinna hins vegar fyrir að vanvirða málfarsgrunninn sem allt nám byggðist á og yrði að leggja fyrst; hinir síðarnefndu gleymdu því líka að enginn gæti leitað þekkingar nema vita fyrst hvers hann ætti að leita og enginn fengið áhuga á neinu nema það væri fyrst kynnt fyrir honum. Nýskólastefnan var (og er, að svo miklu leyti sem hún er enn lifandi) módernísk form- og hagnýtishyggja: Það hvernig maður lærir er mikilvægara en hvað maður lærir því í nútímasamfélagi skiptir meira máli að kunna að leita staðreynda en að hafa þær á reiðum höndum sjálfur. Því gæti maður haldið að það sama hefði gerst á sviði menntamála og til að mynda á sviði byggingarlistar þar sem hefðarsinnar (á borð við Karl Bretaprins) og pm-istar hafa svarist í sérkennilegt bræðralag um að berja á módernismanum. Leggja pm-istar ekki einmitt ofuráherslu á gildi tungumáls og forþekkingar, jafnvel á enn róttækari hátt en mestu hefðarsinnar í menntamálum? Hinn veg ber þó raun á: Slefan slitnar ekki milli nýskólasinna og pm-ista í gagnrýni þeirra á hefðbundið skólastarf. Svo virðist að hið sameiginlega hatur á Skólanum (með stóru S) sem þekkingarmiðstöð hafi náð að breiða yfir málefnaágreininginn, sem er þó í raun mun skarpari en nokkurn tíma milli hefðar- og nýskólasinna. Það kemur ef til vill úr hörðustu átt að ég, sem yfirlýstur hefðarsinni, gefi nýskólasinnum góð ráð; en ég ætla samt að fá að skjóta því að þeim að það eru heimskir sauðir sem gera sér úlfinn að trúnaðarvini. Minnumst þess að þótt deilur hefðar- og nýskólasinna séu harðar þá snúast þær nær eingöngu um aðferðir . Á endanum er naumast mikill munur á manngildishugsjón hefðarsinnans Helgu Sigurjónsdóttur og nýskólasinnans Wolfgangs Edelstein. Bæði vilja að börn læri að lesa, skrifa og reikna í skólum, tileinki sér það réttasta og besta úr fræðum og vísindum, fái tilfinningu fyrir og viðhaldi menningararfinum. Þau eru bara fjarskalega ósammála um hvernig ná eigi þessum markmiðum í reynd í skólastofunni! Pm-istar hafna hins vegar flestum þessara markmiða (nema hugsanlega því að börn læri að lesa og skrifa!). Brýnt er að vera vakandi fyrir muninum á orðalagi þeirra og nýskólasinna jafnvel þegar skotspænirnir eru hinir sömu. Þegar nýskólasinnar segja að ekki eigi að kenna staðreyndir með minnisstagli eiga þeir við "vegna þess að hentugra er að læra þær með öðrum hætti"; pm-istar meina hins vegar "vegna þess að engar staðreyndir eru til". Þegar nýskólasinnar tala um ókosti einstefnumiðlunar er undirskilið "vegna þess að það er óheppilegt kennslufræðilega að kennarinn sé yfir nemendur hafinn"; hjá pm-istum er hugsunin hins vegar "vegna þess að það er engin óvefengjanleg þekking til sem kennarinn hefur að miðla". Nýskólastefnan kann að vera rómantísk og óraunsæ en nýskólasinnar eiga sér þó draum ­ um sjálfstæðan einstakling sem uppgötvar heiminn í kringum sig upp á eigin spýtur. Hjá pm-istum blasir á hinn bóginn ekkert við nema sverta og vonleysi afstæðishyggjunnar. Fyrst afstæðishyggju ber á góma er kominn tími til að huga að hugsjónum af hennar ætt sem pm-isminn er oft gerður að samloku við þótt hinar fyrrnefndu séu auðmeltari. Mikilsvert er til dæmis að greina á milli málleikjahyggju pm-ista á borð við Lyotard (sjá þriðju grein), annars vegar, og hins vegar viðhorfa sem sett hafa mark sitt á hefðbundna bresk- bandaríska heimspeki, ekki síst menntaheimspeki, upp á síðkastið. Þá á ég við fjölhyggju ("pluralism") og fjölmenningarstefnu ("multiculturalism") sem tröllríða nú frjálslyndri ("liberal") stjórnmálaumræðu, ekki hvað síst í Bandaríkjunum. Samkvæmt fjölhyggjunni, sem Clinton-hjónin lofa til að mynda í hverju orði, eigum við að læra að sýna fólki með aðrar trúarskoðanir og lífsstefnu en við virðingu; ólíkir hópar geti búið saman í sátt og samlyndi svo fremi að þeir virði rétt hver annars til að vera öðruvísi. Höfuðmunur þessa og málleikjaöfganna (um að allt utan eigin málleiks/samfélagskima sé okkur lokuð bók) er að fjölhyggjan byggist á húmanisma. Hann birtist hér í þeim óvefengdu frumforsendum að við viljum lifa í friði, að við viljum leyfa öðrum að njóta frelsis, þar á meðal óskoraðs trú- og málfrelsis, að því marki sem það raskar ekki hagsmunum annarra (samanber hina þekktu frelsisreglu J.S. Mills) og að við getum skilið af hverju aðrir hafi að ýmsu leyti aðrar langanir og smekk en við. Pm-istar hafna hins vegar jafnvel slíkum "lágmarks-húmanisma" sem gefnum. Hví, spyrja þeir, ættu til dæmis múslimskir bókstafstrúarmenn að fallast á hann; og er málleikur þeirra eitthvað ómerkilegri en okkar? Að sama skapi er "fjölmenningarstefna" pm- ista önnur en hinna frjálslyndu. Keppikefli pm-istanna er ekki að börn læri um ólík menningarsvæði og samfélagshætti til þess að skilja betur annað fólk. "Fjölmenningarstefna" þeirra er sú að hver menningarkimi lifi við annars hlið í forpokaðri einangrun, vitandi um að óþvinguð samskipti milli ólíkra málleikja eru útilokuð. Höfuðnámsefnið á að vera átthagafræði eigin hóps: hinir heimafengnu baggar ljái okkur þá litlu sjálfskennd, þann litla sjálfsskilning, sem við getum vænst. Enginn málleikur er merkilegri en annar eða býður upp á réttari heimsmynd. Pm-istar í röðum heyrnleysingja í Bandaríkjunum hafa til dæmis barist hatrammlega gegn þróun nýrra heyrnartækja og eyrnaaðgerða á börnum sem valdbeitingu gegn heimi heyrnleysingjanna. Pm-istar hafa yfirleitt lítið álit á háskólum (þótt þangað sæki flestir forsprakkarnir lifibrauð sitt!), enda séu þeir höfuðsetur goðsagnarinnar um sammannlega þekkingu. En háskólar eru starfandi og á meðan svo er þurfa pm-istar að snúa þeirri staðreynd sér í vil. Það gera þeir með því að berjast af öllu afli gegn hugmyndunum um klassíska háskólamenntun og akademískt frelsi og með því að ýta undir öfgar pólitískrar rétthugsunar ("political correctness"). Dæmi: Áherslan á hugsuði eins og Aristóteles, Shakespeare og Einstein er arfleifð karlrembu og rökmiðjuhyggju; í staðinn á að finna lesefni eftir samkynhneigðar blökkukonur í hjólastól. Óbeitin á ritskoðun er húmanísk grilla; auðvitað á ekki að leyfa karlrembum, homma- og kynþáttahöturum að opna kjaft innan veggja háskóla! Háskólakennara sem talar um "feitan" mann en ekki "mann sem á við þyngdarlegt óhagræði að stríða" eða "þingmann" þegar hann á við "þingkonu" ber að dæma í minnst 500 dollara sekt og, í síðara tilfellinu, að skikka til að sækja fundi hjá femínískum vinnuhópi. (Breski rithöfundurinn Kingsley Amis sagði eitt sinn að allt það sem aflaga hefði farið í samtíðarmenningu okkar kristallaðist í einu orði: "vinnuhópur". Ég veit ekki hvað hann hefði sagt um "femínískan vinnuhóp".) Lesendum kann að virðast lýsing mín ýkt. Staðreyndin er hins vegar sú að dæmin sem ég hef tekið eru raunveruleg. Ástandið er meira að segja orðið slíkt víða í húmanískum deildum bandarískra háskóla að talsmenn klassískra gilda þora ekki að malda í móinn af ótta við að verða "afhjúpaðir" og úthrópaðir eins og fórnarlömb "menningarbyltingarinnar" í Kína. Það er helst að rithöfundar á borð við Saul Bellow, Iris Murdoch og Doris Lessing hafi veitt rökleysishyggjunni viðnám (hafa enda ekki úr embættissöðli að detta!) og haldið á lofti merki klassískrar menntunar ­ fyrir alla: konur jafnt sem karla, hvíta sem þeldökka. Sem betur fer eru flestir háskólanemar nógu þroskaðir til að sjá í gegnum ruglið. Mér stendur meiri ótti af áhrifum pm-ískra hugmynda á lægri skólastig. Í Kaliforníu hefur verið gerð lagakrafa um að konur fái jafnmikið rými í öllum kennslubókum og karlar ­ og einhver ágætur kven-stjarnfræðingur sem uppgötvaði halastjörnu á 19. öld er nú kynntur í lengra máli í kennslubók fyrir gagnfræðastigið í Bandaríkjunum en Albert Einstein. Vera má að Jón bóndi hafi hingað til hlotið of litla athygli í kennslubókum miðað við Jón forseta og allar Jónurnar enn minni; en fyrr má nú rota en dauðrota! Ef pm-isminn, sem enn er aðeins á byrjunarreit á Íslandi, nær að breiða úr sér verður líklega þrautaráðið að senda börnin sín í skóla til Afríku, eins og afrískir innflytjendur í Bretlandi gera nú unnvörpum til að nemendurnir fái trausta, klassíska menntun ­ ómengaða af nýskólastefnu og pm-isma. Tilvísanir: 1 Flest ummælin hér að ofan eru sótt í ritgerð Ingólfs Á. Jóhannessonar, "Capable of Resisting and Entitled to Lead: On the Historical Conditions of the Neo-Marxist Educational Discourse", Educational Policy , 6 (1992). 2 Gott dæmi um menntaheimspeki í frjálslyndum fjölhyggjuanda er ritgerð Gutmann, A., "Til hvers að ganga í skóla? Menntun frá sjónarhóli nytjastefnu og réttarhyggju" (þýð. Róbert Jack), Heimspeki á tuttugustu öld , ritstj. Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (Reykjavík: Heimskringla, 1994). Illu heilli hafa mörkin milli frjálslyndrar fjölhyggju og pm-isma þó smám saman verið að mást út, meðal annars með undanslætti páfa frjálslyndisstefnunnar, Johns Rawls, í síðustu bók sinni, Political Liberalism (New York: Columbia University Press, 1993) sem hann segir að eingöngu kunni að höfða til þeirra er hlotið hafi vestrænar lýðræðishugsjónir í vöggugjöf. 3 Sjá t.d. Bloom A., The Closing of the American Mind: How Higher Education Has Failed Democracy and Impoverished the Souls of Today's Students (Harmondsworth: Penguin, 1988) og Sommers, C. H., Who Stole Feminism? How Women Have Betrayed Women (New York: Simon & Schuster, 1994). Höfundur er doktor í heimspeki og dósent við Háskólann á Akureyri.

PM-ISTAR berjast af öllu afli gegn hugmyndunum um klassíska háskólamenntun og akademískt frelsi og með því að ýta undir öfgar pólitískrar rétthugsunar ("political correctness"). Dæmi: Áherslan á hugsuði eins og Aristóteles, Shakespeare og Einstein er arfleifð karlrembu og rökmiðjuhyggju; í staðinn á að finna lesefni eftir samkynhneigðar blökkukonur í hjólastól.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.