Norðmenn þakka það aðhaldssömum Svíum, góðviðri á Norðurlöndum í sumar og atburðunum í New York 11. september að norskar ferðaskrifstofur auglýsa nú útsölur á sólarlandaferðum.
Norðmenn þakka það aðhaldssömum Svíum, góðviðri á Norðurlöndum í sumar og atburðunum í New York 11. september að norskar ferðaskrifstofur auglýsa nú útsölur á sólarlandaferðum. Í norskum fjölmiðlum er sagt frá því að hægt sé að fá ferð til Krítar fyrir tíu þúsund íslenskar krónur, flug og hótel innifalið. Flug til og frá Malaga á Spáni kostar átta þúsund og fimmhundruð íslenskar krónur. Lágu fargjöldin eiga sér nokkrar skýringar. Fádæma gott veður hefur verið í Noregi í sumar, um leið og miklar rigningar hafa verið á meginlandi Evrópu. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september hafa dregið úr ferðalögum fólks og sala á sólarlandaferðum í Svíþjóð hefur gengið illa í sumar. Ferðaskrifstofur þar freista þess að selja laus sæti á norska markaðnum. Talsmenn ferðaskrifstofa segja að botninum hafi verið náð og þeir fari ekki neðar með verðið en það er í dag. Á hinn bóginn er líklegt að lágt verð bjóðist nokkuð fram á haustið þar eð eftirspurnin er ekki mikil.