11. mars 2003 | Miðopna | 557 orð | 1 mynd

Samstarfsráðherrar komast að samkomulagi um nafnamál

Ryðja landamærahindrunum úr vegi

Samstarfsráðherrarnir Siv Friðleifsdóttir og Berit Andnor glugga í tölvuna í Norræna félaginu.
Samstarfsráðherrarnir Siv Friðleifsdóttir og Berit Andnor glugga í tölvuna í Norræna félaginu.
Nafnalög í Svíþjóð gera ráð fyrir að börn fái annaðhvort föðurnafn móður eða föður. Börn sem hafa bæði íslenskan og sænskan ríkisborgararétt geta nú haldið nöfnum sínum með nýrri reglugerð. Hefur því fengist lausn á nafnavanda margra Íslendinga í Svíþjóð.
ÞEIR einstaklingar sem hafa bæði íslenskan og sænskan ríkisborgararétt munu fá sérstaka undanþágu frá sænskum nafnalögum samkvæmt nýrri reglugerð sem Berit Andnor, samstarfsráðherra Svíþjóðar, og Siv Friðleifsdóttir, samstarfsráðherra Íslands, ræddu í gær. Mikill hljómgrunnur er meðal ráðamanna á Norðurlöndum um að ryðja úr vegi þeim landamærahindrunum sem enn ríkja milli Norðurlandaþjóðanna þrátt fyrir þá fjölmörgu samstarfssamninga sem í gildi eru.

Sænsk nafnalög stríða til að mynda gegn íslenskri nafnahefð. Hefur þetta meðal annars leitt til þess að erfiðleikar hafa komið upp við að fá rétta skráningu íslenskra nafna í Svíþjóð fyrir þau börn sem hafa bæði sænskan og íslenskan ríkisborgararétt. Svíar telja að með reglugerð um undanþágu Íslendinga frá sænskum nafnalögum sé þar með fundin frambúðarlausn á vandanum.

"Við komumst að samkomulagi í dag og erum mjög ánægðar. Þetta er skref í áttina til þess að ryðja úr vegi þeim landamærahindrunum sem standa milli Norðurlandaþjóðanna. Við erum að undirbúa tillögu fyrir vorið sem gerir þeim sem hafa tvöfalt ríkisfang kleift að halda íslenskum nöfnum sínum. Það stendur þeim til boða án nokkurs kostnaðar og verður afgreitt fljótt og örugglega. Við höfum vitað af þessu vandamáli í nokkur ár en enginn hefur beitt sér fyrir lagfæringum. Því ákváðum við Siv að taka þetta mál föstum tökum nú og höfum komist að samkomulagi," sagði Berit. Hún sagði þetta aðeins fyrsta skrefið í að ryðja landamærahindrunum úr vegi. "Við höfum einnig hug á að til dæmis hjálpa námsmönnum til að fá námið sitt viðurkennt innan Norðurlanda."

Margt auðleysanlegt en annað flóknara

Siv tók í sama streng og sagði Íslendinga og Svía samhuga um að ryðja hindrunum úr vegi þegar fólk flyst á milli Norðurlandaþjóða.

"Í Svíþjóð gilda lög um að börn skuli fá eftirnafn móður eða föður í stað skírnarnafns föður eða móður. Þetta hafa íslenskir foreldrar ekki viljað sætta sig við. Nýja reglugerðin þýðir að fólk í þessari stöðu getur sótt um undanþágu og þá fá börnin að halda sínu nafni. Þetta er mjög góð lausn að mínu mati. Ef það hefði átt að breyta lögum í Svíþjóð hefði það tekið gífurlegan tíma og því er ég mjög ánægð með að breyta þessu með reglugerð. Mér skilst að þetta verði komið í lag í vor," sagði Siv.

Svíar fara nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni en Ísland tekur við formennsku um áramótin og hefur Siv fullan hug á að halda því starfi sem Svíar hafa byggt upp áfram. "Samstarfsráðherrann er mjög áhugasöm um þetta samstarf og vill leysa þau mál sem koma upp á milli landa. Margt er hægt að leysa með sæmilega auðveldum hætti en annað er miklu flóknara," sagði Siv og benti þar á skattamál.

Svíar leggja nú mikla áherslu á að sýnilegur árangur náist í baráttunni gegn landamærahindrunum og hafa ráðið Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, til þess að fylgja því eftir. Meðal málefna sem Poul berst fyrir er að auðvelda bankayfirfærslur milli landa, gera reglur um eftirlaun og námslán auðveldari, létta á kröfum um ríkisfang ásamt því að samræma kennitölur milli Norðurlandaþjóðanna á einhvern hátt.

Siv og Berit heimsóttu í gær höfuðstöðvar þjónustusímans Halló Norðurlönd en hann er til húsa hjá Norræna félaginu. Þjónustusíminn er ætlaður þeim sem þarfnast upplýsinga um búsetu á Norðurlöndum. Í fyrra voru hringingar um 250 en þær hafa aukist mjög að undanförnu og eru þegar orðnar 109 það sem af er þessu ári. Esther Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þjónustusímans, sagði betri kynningu á þjónustunni að undanförnu skila tilætluðum árangri.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.