Páskamatseðill landsliðsfyrirliðans

Heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni á Ísak Aron Jóhannsson …
Heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni á Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni á Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins og hann fær hið skemmtilega en vandasama verk að velja matseðilinn fyrir páskahátíðina. Kjöt og fiskur er í uppáhaldi hjá Ísaki Aroni og fær það hráefni að njóta sín á matseðlinum.

Ástríðan liggur í matreiðslu

Ísak Aron sér­hæf­ir sig í einkamat­ar­boðum og er með sína eigin veisluþjónustu, ZAK veitingar. Hann hef­ur komið víða við í mat­ar­gerðinni og ligg­ur ástríða hans í mat­reiðslu. Hann byrjaði að læra mat­reiðslu­mann­inn aðeins 15 ára gamall og hefur verið að í tíu ár að læra og vinna á hinum ýms­um stöðum. Ísak hefur náð framúrskarandi árangri í keppnismatreiðslu á undanförnum misserum og núna síðast með íslenska kokkalandsliðinu á Ólympíuleikunum í matreiðslu í febrúar síðastliðnum en landsliðið kom heim með tvenn gullverðlaun og brons fyrir heildarframmistöðu sem er framúrskarandi árangur hjá liðinu.

„Mat­ar­ástríðan mín ligg­ur í því að vinna með fyrsta flokks hrá­efni sem við finn­um hér á Íslandi, fisk­ur og ís­lenska lambið er í upp­á­haldi hjá mér og er það alltaf í fyr­ir­rúmi. Þegar ég elda vil ég líka að fólk muni eft­ir því. Að búa til minn­ingu fyr­ir fólk end­ist mun leng­ur en bragðgóð sósa, þótt það sé fátt sem skák­ar góðri sósu,“ segir Ísak Aron.

„Á vikumatseðilinn minn vel ég ávallt kjöt, fisk eða kjúkling, klassískir réttir eða með tvisti. Auðvitað þarf maturinn líka að líta vel út á disknum og vera bragðgóður á sama tíma og því hef ég valið þessa rétti hér sem ég veit að eiga eftir að slá í gegn. Vert er að gera vel við sig um páskana og leggja þá aðeins meiri metnað í matargerðina,“ segir Ísak Aron með bros á vör.

Mánudagur – Ofnbakaður fiskur í ostasósu með makkarónum

„Mánudagar eru fiskidagar fyrir mér og ég dýrka makkarónur, þess vegna finnst mér tilvalið að skella í ofnbakaðan fisk í ostasósu með makkarónum. Það skemmir ekki fyrir að það sé salami með.“

Girnilegur ofnbakaður fiskur í ostasósu með makkarónum og salami.
Girnilegur ofnbakaður fiskur í ostasósu með makkarónum og salami. Ljósmynd/Gott í matinn

Þriðjudagur – Tagine kjúklingur að hætti Marokkó

„Á þriðjudögum finnst mér kjúklingur og hrísgrjón í uppáhaldi. Tilvalið að krydda aðeins upp á tilveruna og hafa það marokkóskt.“

Ómótstæðilega góður tagine kjúklingur að hætti Marokkó.
Ómótstæðilega góður tagine kjúklingur að hætti Marokkó. Ljósmynd/Unsplash

Miðvikudagur – Cannelloni með smá tvisti

„Það er lasanja kvöld á miðvikudögum en nú með smá tvisti, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt en cannelloni brýtur aðeins upp á lasanja-leikinn.“

Öðruvísi cannelloni með smá tvisti.
Öðruvísi cannelloni með smá tvisti. Ljósmynd/Helga Magga

Fimmtudagur – Klassísk kjötsúpa

„Ég er algjörlega veikur fyrir íslenskri kjötsúpu svo hún verður á fimmtudegi til að koma manni í gírinn fyrir helgina.“

Klassísk íslensk kjötsúpa klikkar ekki.
Klassísk íslensk kjötsúpa klikkar ekki. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Föstudagurinn langi – Frönsk nautalund með trufflum og foie gras

„Föstudagurinn langi er líklega minn minnst uppáhaldsdagur ársins en ég bæti það upp með að bjóða upp á minn uppáhaldsrétt. Franska nautalund með trufflum og foie gras. Til að fylgja eftir veislunni ætla ég líka að bjóða upp á dýrindis bakaða eplahasselback í eftirrétt.“

Syndsamlega ljúffeng nautalund með trufflum og foie gras.
Syndsamlega ljúffeng nautalund með trufflum og foie gras. mbl.is/Eyþór Árnason
Þessi eftirréttur er freistandi.
Þessi eftirréttur er freistandi.

Laugardagur - Sjávarréttasúpa

„Á laugardögum finnst mér oft gott að hafa eitthvað létt í magann svona fyrir kvöldið og því fáum við fjölskyldan okkur sjávarréttarsúpu.“

Dýrðleg sjávarréttasúpa sem á vel við um páskana.
Dýrðleg sjávarréttasúpa sem á vel við um páskana. Ljósmynd/Ingunn Mjöll Guðmundsdóttir

Páskadagur - Páskabröns

„Á páskasunnudegi er frábært að henda í léttan bröns fyrir fjölskylduna, þar kemur þessi réttur sterkur inn, „Egg Benedict“ með reyktum laxi í sælkera útgáfu. Það þarf ekki alltaf að vera með fullt af úrvali í brönsi, oft þykir mér gott að setja fókusinn á einn rétt og hafa hann verulega góðan.“

Guðdómlegur brönsréttur, Egg Benedict með reyktum laxi, hollandaise sósu og …
Guðdómlegur brönsréttur, Egg Benedict með reyktum laxi, hollandaise sósu og dilli að hætti Ísaks.

Reyktur lax og hleypt egg benedict með hollandaise og dilli á ristuðu súrdeigsbrauði

Fyrir 4

  • 200 gr reyktur lax
  • 4 egg
  • 30 gr hvítvínsedik
  • 4 sneiðar súrdeigsbrauð 50 gr dill

Aðferð:

  1. Vatn er hitað í potti með hvítvínsediki og smá salti, þegar vatn hefur náð 80°C hita þá er hrært í pottinum og egg sett út í vatnið.
  2. Leyft að malla þar í u.þ.b. 3-4 mínútur þangað til hvítan hefur eldast en rauðan enn lekandi.
  3. Súrdeigsbrauðið er steikt á pönnu þar til gullinbrúnt.
  4. Næst er reyktur lax settur á brauðið og eftir því fylgir hleypta eggið, hollandaise sósan og ferska dillið.

Hollandaise

  • 3 stk. eggjarauður
  • 300 g smjör
  • 1 stk. sítrónur
  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Eggjarauður eru settar í vatnsbað ásamt smá salti og ferskum sítrónusafa, ekki bæta við öllum sítrónusafanum því það er alltaf hægt að bæta við.
  2. Hrært er stanslaust í eggjunum þar til þær hafa þykknað og á meðan er brætt smjör. Þegar smjörið er bráðið en ekki orðið of heitt þá er því bætt við smá og smá við eggjarauðurnar á meðan er hrært.
  3. Þegar allt smjörið er komið í sósuna að þá er sósan smökkuð til með salti og sítrónusafa þangað til að kokkurinn er sáttur með hana.

Kvöldmatur á páskadag

„Á páskunum er ég ávallt lamb, hvort sem það er lambafille, skankar eða læri. Hér er uppskrift af páskalambalæri sem ég dýrka, ég hef síðan stappaða kartöflumús og rauðvínsgljáa með því og allir sáttir.“

Hægeldað páskalamb er hin fullkomna máltíð á páskadag.
Hægeldað páskalamb er hin fullkomna máltíð á páskadag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert