Klassísk íslensk kjötsúpa fyrir Íslendinga

Íslenska kjötsúpan er ekta haustmatur sem Íslendingar halda mikið upp …
Íslenska kjötsúpan er ekta haustmatur sem Íslendingar halda mikið upp á. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Íslenska kjötsúpan er klassíkur haustréttur okkar Íslendinga og hjá mörgum trónir kjötsúpan á toppnum yfir góðar súpur. Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör heldur mikið upp á kjötsúpuna og á heiðurinn að þessari uppskrift sem er afar þægilegt að vinna eftir.

„Kjötsúpan sjálf er ekki flókin matseld en hún tekur smá tíma, það þarf að gefa henni tíma til að eldast en lítið að hafa fyrir henni. Hráefnin í hana eru auðvitað fullkomin á haustin með grænmetisuppskerunni,“ segir Guðrún Ýr og bætir við að hún kaupi oftast súpukjöt, því beinin og fitan gefur súpunni mikið og gott bragð. Uppskriftin er þokkalega stór en við á matarvefnum mælum með að gera hana alla því hægt er að njóta súpunnar í nokkrar daga, en hún verður til mynda gjarnan betri og bragðmeiri daginn eftir.

Íslensk kjötsúpa

Fyrir 8

 • 2,5 kg súpukjöt
 • 4 l vatn
 • 1 stór rófa
 • 6 gulrætur
 • 10 kartöflur
 • 1 pk. Toro kjötsúpa
 • 1½ dl hrísgrjón
 • 2-3 tsk. salt
 • 1 tsk. pipar
 • 1 tsk. steinselja (má sleppa)

Aðferð:

 1. Setjið súpukjötið í stóran pott ásamt vatni, leyfið suðunni að koma upp, lækkið undir og leyfið að sjóða í minnst 30 mínútur.
 2. Á meðan er gott að skera niður grænmetið, að skera það gróft en samt í munnbita.
 3. Takið kjötið upp úr pottinum eftir 30 mínútur og setjið grænmetið út í.
 4. Farið yfir bitana og skerið kjötið frá beinum og mestu fitunni.
 5. Setjið kjötið aftur út í pottinn ásamt einum pakka af Toro-kjötsúpu, hrísgrjónum, salt, pipar og steinselju.
 6. Leyfið súpunni að krauma í minnst 30 mínútur en þá er gott að smakka hana og athuga stöðuna á grænmetinu og kjötinu.
 7. Berið fram og njótið í góðum félagsskap.
mbl.is