Örvænting, mótmæli og ferskir vindar?

Heinz-Christian Strache formaður Frelsisflokksins í Austurríki
Heinz-Christian Strache formaður Frelsisflokksins í Austurríki Reuters

Um þriðjungur kjósenda undir þrítugu gaf öfga-hægriflokki Heinz- Christians Straches, Frelsisflokknum (FPÖ), atkvæði sitt í nýafstöðnum þingkosningum í Austurríki.

Samanlagt náðu Frelsisflokkurinn og Framtíðarsamtök Austurríkis (BZÖ), flokkur hins umdeilda Jörgs Haiders, tæpum helmingi atkvæða ungra kjósenda. Flokkarnir, sem báðir eru gjarnan kenndir við öfgahægristefnu, náðu samtals tæpum þriðjungi allra atkvæða og lágu aðeins tæpu prósentustigi undir Jafnaðarflokknum (SPÖ), sem hlaut 29,7% atkvæða. Hinn stjórnarflokkurinn, Þjóðarflokkurinn (ÖVP), hlaut 25,6% atkvæða.

Það er áberandi viðhorf austurrískra fjölmiðla og stjórnmálarýnenda að úrslitin endurspegli ekki nýnasisma meðal kjósenda. Það séu aðrar ástæður fyrir úrslitunum. Og það þrátt fyrir að á kosningaveggspjöldum beggja flokka væri að finna skilaboð eins og: „Þýsku frekar en „ég ekki skilja““ (FPÖ) eða: „Austurríki fyrir Austurríkismenn!“ (BZÖ).

Herþjálfun og Hitlers-kveðja

Austurríska dagblaðið Kurier segir viðbrögð alþjóðlegra fjölmiðla eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir hafa verið á einn veg: Að Austurríkismenn hafi enn á ný tekið ógeðfellt skref til hægri, í átt til útlendingahaturs og þjóðernishyggju.

„Helstu rök kjósenda fyrir því að velja öfgahægriflokkana voru mótmæli við stóru flokkana og vonin um að ferskir vindar blási um stjórnmálin á ný,“ var haft eftir Evu Zeglovits, talsmanni SORA-stofnunarinnar, sem lagði skoðanakannanir fyrir kjósendur að loknu kjöri.

Þó kom fram í máli Zeglovits að frjálslegt tal forystumanna flokkanna um innflytjendamál og myndir af Strache, leiðtoga FPÖ, í herþjálfun með þekktum nýnasistum og veifandi Hitlers-kveðjunni, virtust ekki hafa fælt kjósendur frá.

Fyrir ellefu árum vann Jörg Haider stóran kosningasigur þegar Frelsisflokkurinn náði undir hans stjórn 27% atkvæða. Síðan þá hefur Haider yfirgefið Frelsisflokkinn og stofnað Framtíðarsamtökin. Sé fjölmiðlaumfjöllunin fyrir 11 árum skoðuð koma fram nákvæmlega sömu rök og nú eru viðhöfð í fjölmiðlum; enginn nýnasismi heldur mótmæli við ríkjandi flokka og von um breytingar.

Jafnaðarflokkurinn og Þjóðarflokkurinn sem mynduðu fráfarandi ríkisstjórn áttu í stöðugum innri deilum sem leiddu til þess að boða varð til skyndikosninga eftir tæpra tveggja ára samstarf. Það er mat stjórnmálaskýrenda að flokkunum hafi láðst að taka skýra stöðu gegn öfgahægriöflunum í nýafstaðinni kosningabaráttu. „Engir innflytjendur án þýskunámskeiða“ (Þjóðarflokkurinn) eða „Hælissvik þýða flug heim“ (Jafnaðarmenn) var að finna á kosningaveggspjöldum fráfarandi stjórnarflokka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert