Raðmorðinginn skotinn til bana

Lögreglan í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum telur að maðurinn sem féll í dag í skotbardaga við lögregluna í Norður-Karólínu sé raðmorðinginn sem hún leitaði að.

Að sögn lögreglunnar sýna niðurstöður rannsóknar á byssu mannsins að hún hafi getað verið notuð við morðin á fimm íbúum í bænum Gaffney að undanförnu. Lýsingar á raðmorðingjanum og bifreið hans virðast einnig passa.

Lögreglan í Norður-Karólínu fékk fyrr í dag tilkynningu um að innbrot væri mögulega í gangi. Þegar lögreglan kom á staðinn hitti hún tvo íbúa og kunningja þeirra. Skotið var á lögregluna sem skaut árásarmanninn til bana. Einn lögreglumaðurinn fékk skot í fótinn, að því er greint er frá á fréttavef CNN.

Íbúar í Gaffney hafa verið skelfingu lostnir og hafa margir þeirra keypt skotvopn undanfarna daga til þess að geta varið sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert