Þýski herinn minnkaður og herskylda aflögð

Þýskur hermaður við gæslu í Chahar Dara í Afganistan.
Þýskur hermaður við gæslu í Chahar Dara í Afganistan. RUBEN SPRICH

Varnarmálaráðherra Þýskalands, Karl-Theodor zu Guttenberg, kynnti í dag áætlanir sínar um að fækka þýskum hermönnum um þriðjung og leggja af herskyldu, sem lið í niðurskurði ríkisstjórnarinnar. Verði fyrirætlanir hans samþykktar mun þýskum hermönnum fækka úr 252.000 í dag í 165.00 í framtíðinni.

Zu Guttenberger segir að niðurstaðan verði „smærri en betri her sem er betur búinn undir aðgerðir". Fyrirætlanir hans eru engu að síður mjög umdeildar í Þýskalandi. Enn verður kveðið á um herskyldu í stjórnarskránni, en lögum verður breytt þannig að herinn verði að óbreyttu aðeins skipaður sjálfboðaliðum. Áætlað er að um 7.500 gangi árlega til liðs við herinn að eigin frumkvæði.

Ráðherrann sagðist vilja halda ákvæðinu um herskyldu inni í stjórnarskránni því „hver getur sagt til um hvernig kringumstæðurnar verða eftir 20 eða 30 ár?" Samkvæmt opinberum tölum eru um 63.000 manns kallaðir til herþjálfunar árlega. Stutt er síðan yfirvöld styttu skyldubundna herþjálfun úr 9 mánuðum í 6.

Angela Merkel kanslari Þýskalands hét því í júní síðastliðnum að ná 80 milljarða evru niðurskurði fyrir árið 2014, þar af yrðu framlög til varnarmála minnkuð um 8,3 milljarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert