Venesúela bannar myndir af Chávez

Veggmynd af Hugo Chávez forseta Venesúela í Caracas.
Veggmynd af Hugo Chávez forseta Venesúela í Caracas. Reuters

Ríkisstjórn Venesúela hefur bannað notkun mynda af Hugo Chávez forseta í áróðursskyni án útgefins leyfis frá forsetanum sjálfum. Þá er notkun mynda af forsetanum á opinberum byggingum einnig bönnuð, samkvæmt nýju lögunum.

Hinsvegar gæti reynst erfitt að framfylgja þessu banni. Að sögn BBC eru myndir af Chávez með því fyrsta sem fyrir augu ber þegar komið er til Venesúela. Andlit hans prýðir þúsundir plakata, auglýsinga og húsveggja um landið allt og allajafna er það skreytt slagorðum með áróðri um allt það sem hann hafi áorkað með sósíalískum aðgerðum.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa lengi gagnrýnt það sem þeir segja misnotkun á almannarými með áróðri um forsetann. Ólíklegt þykir þó að ríkisstjórnin hafi sett lögin til að friða stjórnaandstöðuna. Ástæðan sem gefin er fyrir lagasetningunni er að ímynd forsetans „eigi að nota með takmörkunum sem heimili að hann sé viðurkenndur í hlutverki hins æðsta leiðtoga".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert