Kærustu Nemtsovs hótað lífláti

Hópur evrópskra sendiherra leggur blóm á staðinn þar sem Nemtsov …
Hópur evrópskra sendiherra leggur blóm á staðinn þar sem Nemtsov var myrtur. EPA

Kærasta rússneska stjórnarandstæðingsins Boris Nemtsovs, sem skotinn var til bana í Moskvu í síðustu viku, hefur fengið líflátshótanir síðustu daga. Kærastan er úkraínsk fyrirsæta og heitir Ganna Duritska. Hún fór til Úkraínu á mánudaginn, þremur dögum eftir morðið á Nemtsov. 

Samkvæmt tilkynningu frá saksóknara hefur Duritska kært líflátshótanirnar sem bárust henni nafnlaust en hún dvelur á heimili foreldra sinna í Kænugarði. 

Saksóknarinn, Viktor Shokin, hefur fyrirskipað að „allt verði gert til þess að vernda líf og heilsu“ konunnar. 

Talsmaður skrifstofu Shokins, Andriy Demartyno, útskýrði í samtali við AFP-fréttaveituna að það þýddi að nokkrir sérsveitarmenn lögreglu myndu sjá fyrir öryggi fyrirsætunnar. Hann útskýrði ekki frekar líflátshótanirnar. 

Nemtsov var skotinn til bana seint á föstudagskvöld rétt hjá Kreml. Lítið sem ekkert er vitað um þann sem skaut og heldur Duritska því fram að hún hafi ekki séð framan í morðingjann. 

Duritska yfirgaf Moskvu aðfaranótt mánudags. Hún hafði kvartað yfir því að rannsóknarlögreglumenn hefði haldið henni í íbúð sinni í næstum því þrjá daga í yfirheyrslum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert