Útganga Breta yrði áfall

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, segir að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu myndi skapa „gríðarlegan efnahagsvanda“. Það yrði áfall fyrir breskan efnahag og við tækju erfiðir óvissutímar.

Samkvæmt nýrri könnun meðal hagfræðinga, sem breska blaðið The Observer gerði, telja 88% þeirra að úrsögn úr Evrópusambandinu myndi hafa skaðleg áhrif á breska hagkerfið.

639 hagfræðingar voru spurðir álits en svarhlutfallið var aðeins 17%.

Samtökin Vote Leave, sem berjast fyrir því að Bretar segi skilið við Evrópusambandið, sögðu að hagfræðingar hefðu áður haft rangt fyrir sér þegar þeir mæltu með því að Bretar tækju upp evruna.

„Það var samhljóða álit hagfræðinga að Bretland ætti að kasta pundinu fyrir fimmtán árum. Þeir höfðu þá rangt fyrir sér og hafa nú aftur rangt fyrir sér,“ sagði Matthew Elliott, framkvæmdastjóri samtakanna, í yfirlýsingu.

Tony Blair sagði í samtali við BBC að áhættan, sem myndi fylgja útgöngu Breta, væri ekki reist á einhverri óljósri tilgátu. „Þetta er eitthvað sem mun beinlínis sjást í störfum fólks, lífskjörum og trausti fyrirtækja,“ sagði hann.

Efnahagslegu afleiðingarnar yrðu verulegar. Það eitt væri ljóst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert