Fer Holland næst úr Evrópusambandinu?

Geert Wilders.
Geert Wilders. AFP

Vangaveltur eru uppi um það hvort Holland verði næsta ríki Evrópusambandsins til þess að segja skilið við sambandið. Stjórnmálaskýrendur telja þó ólíklegt að það gerist í náinni framtíð að minnsta kosti. Bæði er Holland eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og hluti af evrusvæðinu. Einkum það síðarnefnda gerir Hollendingum erfiðara að yfirgefa sambandið.

Haft er eftir Geert Wilders, leiðtoga hollenska Frelsisflokksins, í frétt AFP að næst sé röðin komin að Hollendingum á eftir Bretum en flokkur hans er einkum þekktur fyrir harða stefnu í innflytjendamálum. Þingkosningar verða í Hollandi í mars á næsta ári og er búist við að ákvörðun breskra kjósenda að yfirgefa Evrópusambandið hafi áhrif á kosningabaráttuna.

Wilders hefur heitið því að þjóðaratkvæði í Hollandi um veru landsins í Evrópusambandinu verði helsta stefna Frelsisflokksins fyrir þingkosningarnar. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt flokkinn með mest fylgi. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, telur hins vegar takmarkaðan áhuga í landinu á þjóðaratkvæði um veruna í sambandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert